153. löggjafarþing — 80. fundur,  14. mars 2023.

upplýsingagjöf um sjálfbærni á sviði fjármálaþjónustu og flokkunarkerfi fyrir sjálfbærar fjárfestingar.

415. mál
[19:10]
Horfa

Þórhildur Sunna Ævarsdóttir (P):

Virðulegur forseti. Ég kem hér upp vegna þess að mér hefur orðið ljóst að það eru ákveðnar efasemdir um afmarkaðan hluta af þessu frumvarpi og í raun er ákveðinn réttarágreiningur um afmarkaða hluti af þessari löggjöf eins og hún birtist okkur í Evrópu og í Evrópusambandinu. Það eru ákveðin málaferli í gangi og það eru bara uppi efasemdir um hvort það sem liggur undir í þessari löggjöf standist yfir höfuð heildarlöggjöf Evrópusambandsins. Þetta snýr að því að það er ákveðið að halda því fram og setja inn í þessa ákvörðun eða reglugerð að það að fjárfesta í kjarnorku eða gasi sé á einhvern hátt sjálfbær fjárfesting. Þetta byggir ekki á neinum vísindalegum rökum eða gögnum, virðulegi forseti, það er alveg ljóst.

Sömuleiðis er uppi mikill ágreiningur innan þess fagráðs sem átti að sinna því að meta hvaða félli þarna undir og mörg félagasamtök og samtök sérfræðinga hafa sagt sig úr þessu fagráði vegna þess sem þau kalla pólitíska afskiptasemi Evrópuráðsins, ekki Evrópuráðsins sem ég starfa í heldur framkvæmdahliðinni af Evrópusambandinu. Ég veit að þessar alþjóðastofnanir hjálpa okkur ekki í að halda hlutum á hreinu. En svona er þetta sem sagt. Evrópuráðið hefur verið með pólitísk afskipti af því hvernig það sem á að vera byggt á faglegum og vísindalegum grunni sé ákveðið. Af þeim sökum hefur fjöldi félagasamtaka og fagsamtaka sagt sig úr þessu fagráði. Og eins og ég hef ítrekað hér þá standa yfir málaferli út af þessum anga af þessari löggjöf og þetta gæti endað alla leiðina fyrir Evrópudómstólnum og allt snýr þetta að mjög mikilvægum þætti sem er grænþvottur. Það er mat allra helstu náttúruverndarsamtaka í Evrópu nú að því miður verði þessi eiturpilla sem er þarna inni, að skilgreina gas og kjarnorku sem sjálfbæra fjárfestingu, þess valdandi að í staðinn fyrir að vera vörn gegn grænþvotti þá er þarna risavaxinn grænþvottur á þessum mjög svo mengandi og alls ekki sjálfbæra iðnaði í gangi.

Af þessum sökum, vegna þess að það er ákveðin réttaróvissa í gangi um málið sem liggur undir í þessari innleiðingu hjá okkur og líka vegna þess að það er möguleiki á að okkur geti farnast svo og við getum brugðist við þannig að við getum innleitt allt það góða og sleppt þessu eina vonda, þá þykir mér tilefni til þess að óska eftir því að þetta mál verði tekið aftur inn til efnahags- og viðskiptanefndar. Við fáum að heyra sjónarmið frá náttúruverndarsamtökum og sérfræðingum innan ráðuneytisins um hvort við getum brugðist við með einhverjum hætti þannig að þessi málaferli hafi ekki áhrif hérna heima og sömuleiðis þannig að við liggjum ekki undir sama ámæli og Evrópusambandið liggur núna sem er að það hafi kiknað undan lobbýisma orkufyrirtækjanna og ákveðið að grænþvo mjög ósjálfbæran orkuiðnað með þessari löggjöf. Og ég held að þetta sé alveg hægt, virðulegi forseti. En ég myndi vilja fá faglega ráðgjöf við það og þar af leiðandi, eins og áður segir, óska ég eftir að málið verði tekið aftur inn í nefnd til frekari umfjöllunar til að athuga hvort við getum ekki lagað bara þennan litla anga þessa máls eða a.m.k. myndað okkur upplýsta afstöðu til þess hvort það sé ekki rétt að gera svo.