153. löggjafarþing — 80. fundur,  14. mars 2023.

upplýsingagjöf um sjálfbærni á sviði fjármálaþjónustu og flokkunarkerfi fyrir sjálfbærar fjárfestingar.

415. mál
[19:16]
Horfa

Þórhildur Sunna Ævarsdóttir (P) (andsvar):

Virðulegur forseti. Ég myndi nú ekki endilega segja það, einfaldlega vegna þess að okkur ber skylda til að innleiða reglugerðir sem koma frá Evrópusambandinu. Ég get ekki lagt mat á það hvort þetta hafi verið réttur tímapunktur eða einhver annar. Hins vegar höfum við ákveðið svigrúm þegar kemur að innleiðingu og þegar uppi er jafn mikill ágreiningur — horfum bara á hvað gerðist í Evrópuþinginu með þetta mál og hversu ríflega þingið klofnaði í afstöðu sinni gagnvart máli sem alla jafna myndi heita nokkuð svona, mig langar til að sletta á ensku, virðulegi forseti, og segja „feel good“-mál, þ.e. mál sem allir eru sammála um að sé mikilvægt að vinna að, mál sem flestir ættu að geta lagt stuðning sinn við. Í staðinn þá klofnaði þingið. 278 þingmenn sögðu: Út með gas og kjarnorku, þetta eru ekki sjálfbærar fjárfestingar. Þetta er bara einn angi af þessu máli auðvitað en gríðarlega mikilvægur angi, sér í lagi vegna þess að mörg af þeim félagasamtökum sem hafa verið að berjast fyrir náttúruvernd og gegn loftslagsbreytingum hafa bent á að með því að hafa gas þarna inni þá erum við að hætta á það að Evrópa verði enn þá háðari Rússum um gas. Við erum að lengja í snörunni þegar kemur að því. Þetta finnst mér vera mjög réttmætar ábendingar. Eins og ég benti á voru 278 þingmenn sem vildu út með gas og kjarnorku og 328 þingmenn sem kusu að halda því inni. Þetta er ekki einhuga mat Evrópuþingsins. Það voru einmitt grænu flokkarnir sem vildu kjarnorkuna og gasið út. Markmiðið með þessu er að koma í veg fyrir grænþvott og að styrkja fjárfestingu í sjálfbærum fjárfestingum (Forseti hringir.) og ég hlýt að spyrja hv. þingmann á móti: Telur hún að fjárfesting í gasi, fjárfesting í kjarnorku, geti virkilega talist vera sjálfbær fjárfesting?