153. löggjafarþing — 80. fundur,  14. mars 2023.

upplýsingagjöf um sjálfbærni á sviði fjármálaþjónustu og flokkunarkerfi fyrir sjálfbærar fjárfestingar.

415. mál
[19:19]
Horfa

Frsm. meiri hluta efh.- og viðskn. (Guðrún Hafsteinsdóttir) (S) (andsvar):

Virðulegi forseti. Í reglugerðinni voru sett fjögur grunnskilyrði fyrir því að atvinnustarfsemi geti talist sjálfbær. Þau eru um verulegt framlag til a.m.k. eins af umhverfismarkmiðunum, að starfsemin skaði ekki verulega neitt af öðrum markmiðum, að lágmarksverndarráðstöfunum sé fullnægt og að megindleg og eigindleg tæknileg viðmið séu uppfyllt. Ítarlegri tæknileg viðmið um hvað telst færa verulegt framlag til umhverfismarkmiða reglugerðarinnar á að útfæra í framseldri reglugerð framkvæmdastjórnar Evrópusambandsins. Ég ítreka það að ég ætla ekki hér og nú að taka efnislega afstöðu til þess hvað nákvæmlega er í Taxonomy-reglugerðinni og hvað ekki. Hins vegar er þetta gott skref. Þetta er nauðsynlegt skref. Það er verið að leiða þetta hér inn í íslenska löggjöf og eftir sem áður eru íslenskir fjárfestar, eins og t.d. lífeyrissjóðirnir, með sínar fjárfestingarheimildir og fjárfestingarreglur og setja sér reglur um sjálfbærniviðmið sín sem og annað og þurfa að taka afstöðu til sinna fjárfestinga. Ég ætla að ítreka það að við höfum svigrúm til að taka þetta mál til baka til nefndar á milli 2. og 3. umr. Hv. þingmaður talar hér fyrir því að nefndin fái ráðgjöf (Forseti hringir.) og ég held að það sé mjög gott að nefndin fari yfir það hvernig staðan er á málinu í Evrópu með tilliti til þessara málaferla.