153. löggjafarþing — 80. fundur,  14. mars 2023.

upplýsingagjöf um sjálfbærni á sviði fjármálaþjónustu og flokkunarkerfi fyrir sjálfbærar fjárfestingar.

415. mál
[19:22]
Horfa

Þórhildur Sunna Ævarsdóttir (P) (andsvar):

Virðulegur forseti. Ég þakka hv. þingmanni fyrir andsvarið. Ég greindi ekki alveg hvort hv. þingmaður liti svo á að gas væri raunverulega sjálfbær fjárfesting eða ekki og kjarnorka. Við vitum t.d. að það er ekki hægt að ganga frá kjarnorkuúrgangi með neinum vistvænum eða varanlegum hætti. Hún nefndi einmitt þessi tæknilegu viðmið sem eru notuð til að meta hvað telst vera sjálfbær fjárfesting og hvað ekki. Það er einmitt þetta sem ég var að vísa í þegar ég sagði að félagasamtök og sérfræðingar væru að ganga úr þessum hópi, þessum tæknilega hópi sem var fenginn af Evrópusambandinu til að meta skilyrðin, ákveða hvernig ætti að meta hvað eru sjálfbærar fjárfestingar. Þau eru að segja sig frá þessum hópi í hrönnum. Þetta eru bæði neytendasamtök og svo sérfræðingar í náttúruvernd. Þau eru að segja sig frá þessu í hrönnum vegna pólitískra afskipta Evrópusambandsins og vegna þess að það sem Evrópusambandið er að gera í rauninni er að nota viðmið sem eru ekki byggð á vísindalegum grunni, sem er það sem þessi vinna á að byggja á. Hún á að meta út frá vísindalegum grunni hvort þetta sé sjálfbær fjárfesting eða ekki. Það sem er í raun og veru verið að segja hérna og það sem þessi málaferli snúast öll um er að þessi ákvörðun, að hafa gasið og kjarnorkuna inni í þessum pakka, sé andstæð skyldu Evrópusambandsins til að meta svona hluti á vísindalegum og faglegum grunni en ekki pólitískum og hún gangi gegn öðrum lögum sem snúa að náttúruvernd innan Evrópusambandsins og snúa að baráttunni gegn loftslagsbreytingum. Þannig að jú, það sem ég er að biðja um er að við förum yfir þetta og athugum hvort við getum ekki bara lagfært þetta frumvarp (Forseti hringir.) þannig að við sleppum gasi og kjarnorku. Ég meina, við höfum ekkert með það að gera hvort eð er.