153. löggjafarþing — 81. fundur,  15. mars 2023.

opinn fundur um skýrslu um Lindarhvol.

[17:26]
Horfa

Hildur Sverrisdóttir (S):

Herra forseti. Mér þykir kannski fullmikið talað um farsa og myndi nú kannski beina því til baka eftir umræðu um þetta mál undanfarnar vikur sem fjallar um skjal sem hreint út sagt má ekki birta samkvæmt lögum, (Gripið fram í.) sama hvað vilji meiri hlutans um það mál snýst. Það eina sem er hægt er að gera í þeirri stöðu, hið rétta að gera í þeirri stöðu, er að taka málið á til þess bærum vettvangi eins og við getum gert, sem er á vettvangi stjórnskipunar- og eftirlitsnefndar og fá til þess bæra aðila til að tjá sig um efnisatriði máls eins og hefur verið gert í dómsal fyrir skömmu síðan af nefndum settum ríkisendurskoðanda. Honum er vel treystandi til þess að gera greinarmun á því hvað hann getur fjallað um, hverju hann vill koma á framfæri um stöðu þessa máls og við getum rætt það við aðra ríkisendurskoðendur í þessu máli sem málið snýr hvað mest að. Þannig að ég hafna þessum fullyrðingum stjórnarandstöðunnar.