153. löggjafarþing — 81. fundur,  15. mars 2023.

opinn fundur um skýrslu um Lindarhvol.

[17:36]
Horfa

Ásthildur Lóa Þórsdóttir (Flf):

Virðulegi forseti. Mér þykir svolítið mikið um fullyrðingar hérna, eins og t.d. frá hv. þm. Hildi Sverrisdóttur, sem er með alls konar fullyrðingar um hvernig skýrslan er og hvernig hún hafi verið uppbyggð og að það sé verið að byggja á þessu og hinu. Ég velti fyrir mér hvaðan í ósköpunum þið hafið þessar upplýsingar. Þetta snýst um traust. Það ganga alla vega þær sögur og einhvers staðar hefur maður heyrt að þær stangist í einhverjum stórum atriðum á, þessar tvær skýrslur, greinargerðin annars vegar og skýrslan hins vegar. Ég veit ekki hvort það er rétt, það getur vel verið að svo sé ekki. Ef svo er ekki þá er ekkert mál að birta þetta, bara ekki neitt. En við þurfum að fá úr þessu skorið. Þetta snýst um traust. Það er gríðarlega mikið vantraust í þjóðfélaginu gagnvart öllu sem snertir þessar eignir bankanna eftir hrun og ég veit ekki hvað maður á að kalla þetta allt saman. Það verður að opna þessi mál algjörlega. Það er ekkert sem réttlætir annað. Og það að ætla að fara að kalla fyrir settan ríkisendurskoðanda til að svara fyrir eitthvað (Forseti hringir.) sem má ekki segja, það bara nær ekki nokkurri einustu átt.