153. löggjafarþing — 81. fundur,  15. mars 2023.

opinn fundur um skýrslu um Lindarhvol.

[17:38]
Horfa

Sigurjón Þórðarson (Flf):

Herra forseti. Við erum sett í alveg stórundarlega aðstöðu. Við eigum að fara að ræða eitthvað sem enginn má sjá og það er sjálfur hæstv. forseti þingsins sem stýrir því. Ég vil því spyrja: Er hann undir einhverjum þrýstingi? Er hæstv. fjármálaráðherra að beita þrýstingi eða að halda þessari leyndarhyggju uppi? Þetta er voðalega neyðarlegt fyrir okkur sem erum hér inni. Eða er það bara hæstv. forsætisráðherra sem er að ýta undir þetta ástand, að heil nefnd sé að ræða hér hluti sem enginn má sjá nema forseti þingsins? Þetta er auðvitað óþolandi ástand. Ég hef vissan skilning á því að þingmenn Sjálfstæðisflokksins komi hér upp og verji hæstv. fjármálaráðherra, að embættisverk hans séu mögulega eitthvað sem enginn má verða vitni að í samfélaginu. En ég botna bara ekkert í þingmönnum Framsóknarflokksins og hvað þá Vinstri grænna að standa í þessari nauðvörn.