153. löggjafarþing — 81. fundur,  15. mars 2023.

opinn fundur um skýrslu um Lindarhvol.

[17:40]
Horfa

Forseti (Birgir Ármannsson):

Í tilefni af ummælum hv. þingmanns þá vill forseti geta þess að ástæða þess að forseti hefur talið að það væri töluvert viðurhlutamikið af hálfu þingsins að birta þessa greinargerð setts ríkisendurskoðanda eru mjög alvarlegar og eindregnar athugasemdir sem komið hafa frá ríkisendurskoðanda, sem tók við verkefninu sumarið 2018 og lauk því 2020. Bæði núverandi ríkisendurskoðandi og forverar hans gerðu mjög miklar athugasemdir við það þegar áform voru uppi um það af hálfu forsætisnefndar þingsins að birta þetta skjal. Ríkisendurskoðun hefur bæði vísað til laga um Ríkisendurskoðun og þeirra skilmála sem þar eru í 15. gr. varðandi afhendingu gagna. Eins hefur ríkisendurskoðandi lýst því yfir að hann teldi að ákvörðun Alþingis sem færi í bága við afstöðu Ríkisendurskoðunar fæli í sér mikið inngrip í sjálfstæði stofnunarinnar.