153. löggjafarþing — 81. fundur,  15. mars 2023.

opinn fundur um skýrslu um Lindarhvol.

[17:46]
Horfa

Björn Leví Gunnarsson (P):

Forseti. Mér finnst þetta dálítið undarlegt, eins og hv. þingmenn eru búnir að koma að hérna áður, Hanna Katrín Friðriksson hérna rétt áðan, því að settur ríkisendurskoðandi skilaði þessari greinargerð til Alþingis. Og þá erum við að tala um upplýsingagjöf Alþingis en ekki ríkisendurskoðanda. Það er ekki verið að vega að neinum heiðri einhvers ríkisendurskoðanda eða neitt svoleiðis þegar við erum að fjalla um gögn sem eru hjá Alþingi. Við erum með upplýsingalög um stjórnsýslu Alþingis og þau gögn sem Alþingi er að sýsla með. Sumir þingmenn geta farið í eitthvert læst herbergi á Alþingi og lesið skýrsluna án aðkomu ríkisendurskoðanda. Er það einhvern veginn að vega að heiðri ríkisendurskoðanda? Auðvitað ekki af því að þetta eru Alþingisgögn sem við erum að ræða hérna. Að blanda eitthvað ríkisendurskoðanda í þetta er bara til að villa um fyrir fólki, slá ryki í augun á fólki.

Alþingi er með skjalið. Við erum með lögfræðiálit um að það eigi að birta nákvæmlega það skjal og við eigum að fylgja því. Mjög einfalt. (Gripið fram í: Heyr, heyr.)