153. löggjafarþing — 81. fundur,  15. mars 2023.

útlendingar.

382. mál
[18:08]
Horfa

Guðbrandur Einarsson (V) (um atkvæðagreiðslu):

Virðulegur forseti. Þá greiðum við atkvæði um hið svokallaða útlendingafrumvarp sem hefur verið til meðferðar þingsins í mörg ár án þess að því hafi verið hleypt í gegn. Nú er hins vegar svo komið að Vinstrihreyfingin – grænt framboð ætlar að sjá til þess að það verði að lögum þrátt fyrir mikla andstöðu innan sinna eigin raða. Mörg þeirra sem vinna að þessum málaflokki kölluðu eftir samráði og samstarfi við gerð frumvarpsins en á það var ekki hlustað. Stærstur hluti umsagnaraðila skilaði neikvæðri umsögn og allflestir þeirra gesta sem komu fyrir nefndina töluðu gegn frumvarpinu. Hvers vegna ekki var brugðist við ákalli um aukið samráð er í raun illskiljanlegt.

Það hlýtur að vekja athygli að útlendingafrumvarp Sjálfstæðisflokksins verði hér að lögum á vakt Vinstri grænna með stuðningi Framsóknarflokksins. Hverjum skyldi hafa dottið það í hug?