153. löggjafarþing — 81. fundur,  15. mars 2023.

útlendingar.

382. mál
[18:11]
Horfa

Andrés Ingi Jónsson (P) (um atkvæðagreiðslu):

Herra forseti. Í dag fáum við mælingu á því hversu langan tíma það tekur flokk að verða svo samdauna samstarfsflokkunum að hann er tilbúinn til að samþykkja frumvarp sem gengur þvert á stefnu hans. Fimm ár tók það. Og kannski er lexían af þessari tilraun, að blanda saman öllu hinu pólitíska litrófi í eina ríkisstjórn, sú að þegar við blöndum saman öllum litum regnbogans fáum við út drullubrúnt drullumall. Þetta er dapurleg staða fyrir fólk sem einhvern tíma trúði á Vinstri græn en við ætlum ekkert að syrgja það. Þau geta jarðsungið stefnu sína á landsfundi um helgina. Þetta er hins vegar dapurleg staða fyrir mannúð. Þetta er dapurleg staða fyrir okkur sem viljum standa með mannúð gagnvart jaðarsettum hópum. Við viljum standa með flóttafólki.

Það er dapurlegur dagur þegar stjórnarflokkarnir troða útlendingaandúð inn í útlendingalög.