153. löggjafarþing — 81. fundur,  15. mars 2023.

útlendingar.

382. mál
[18:19]
Horfa

Sigmar Guðmundsson (V) (um atkvæðagreiðslu):

Herra forseti. Pínulítið samhengi. Það geta 450 milljónir manna flutt til Íslands hvenær sem er, búið hér, lifað hér, unnið hér og notað heilbrigðisþjónustu og alla innviði. Það búa tugþúsundir útlendinga á Íslandi á hverjum tíma. Þeir nota innviði, vegi, ganga í skóla og eru boðnir velkomnir. Við erum að breyta lögum og reglum til að bjóða sérfræðinga utan EES velkomna. Þeir mega koma í hópum. Þeir mega nota vegi, innviði, sjúkrahús, skóla og hafa vinnu. Við opnum faðminn fyrir flóttafólki frá Úkraínu og bjóðum það velkomið. Það fær að nota innviði og við opnum fyrir því faðminn. Allt þetta er ótrúlegur fjöldi fólks sem við bjóðum velkominn. En þegar fólk kemur á bátskænu yfir Miðjarðarhafið og endar á Íslandi í hundraðatali, ekki þúsundatali heldur hundraðatali og er að flýja stríð og hörmungar, þá kaupum við hengilás. Þá tölum við um ógn. Þá er orðið neyðarástand og álagið á innviði orðið allt of mikið. Þá allt í einu getum við ekki opnað faðminn og hjálpað þeim sem sárast þurfa á hjálp að halda. Hvers vegna er það?