153. löggjafarþing — 81. fundur,  15. mars 2023.

útlendingar.

382. mál
[18:44]
Horfa

Arndís Anna Kristínardóttir Gunnarsdóttir (P):

Herra forseti. Samkvæmt núgildandi lögum njóta flóttamenn ákveðinnar undanþágu frá kröfum sem gerðar eru til þess að fjölskyldumeðlimir fái dvalarleyfi vegna fjölskyldusameiningar, vegna þess að grunnskilyrði slíks dvalarleyfis eru t.d. að fólk geti séð fyrir sér og það eru ákveðnar skjalakröfur og annað sem ekki þykir rétt að gera kröfu um þegar flóttafólk sameinast fjölskyldu sinni. Hér er verið að leggja til að þessi réttur verði skertur fyrir hina og þessa hópa flóttafólks. Réttur þeirra til að fá fjölskyldu sína til sín eftir að þeim hefur verið veitt vernd hér á landi er skertur. Því hefur verið ranglega haldið fram, og mig grunar að hv. þm. Bryndís Haraldsdóttir muni koma og endurtaka þá rangfærslu, að þetta ákvæði sé ívilnandi. Því hefur verið haldið fram af hálfu dómsmálaráðuneytisins og fleiri. Þar er átt við að það er áréttað í þessu ákvæði að fólk sem vill svo til að fær fjölskyldusameiningu á grundvelli laganna, fái stöðu flóttamanns en ekki mannúðarleyfi. Það kom hins vegar fram við meðferð málsins í nefndinni að þannig er framkvæmdin í dag. (Forseti hringir.) Það er verið að árétta eitthvað sem er í framkvæmdinni í dag og það er notað til að halda því fram (Forseti hringir.) að þetta ákvæði sé ívilnandi. Þetta ákvæði er ekki ívilnandi. Það eina sem er jákvætt í þessu ákvæði er í framkvæmd nú þegar. Ég segi já.