153. löggjafarþing — 81. fundur,  15. mars 2023.

útlendingar.

382. mál
[18:52]
Horfa

Arndís Anna Kristínardóttir Gunnarsdóttir (P):

Herra forseti. Það ákvæði sem hér er lagt til að verði fellt brott úr lögunum er svohljóðandi, með leyfi forseta:

„Við 25. tölul. bætist nýr málsliður, svohljóðandi: Útlendingur telst ekki umsækjandi um alþjóðlega vernd þegar hann hefur fengið endanlega niðurstöðu í máli sínu á stjórnsýslustigi.“

Þetta ákvæði er í samfloti með 6. gr. frumvarpsins sem varðar sviptingu þjónustu við umsækjendur um alþjóðlega vernd þegar þau eru búin að fá synjun í máli sínu. Við munum ræða ítarlega um þá grein hér rétt á eftir vegna þess að að sjálfsögðu leggjum við til að hún verði líka felld brott úr þessu frumvarpi, enda er það það ákvæði sem hefur kannski einna mest verið gagnrýnt og var fyrst og fremst mótmælt hér fyrir utan rétt áðan. Það er ekki í þágu skilvirkni, það er ekki sparnaður fyrir ríkissjóð og ekki í þágu mannúðar. Þessi breyting er ekki í þágu eins eða neins. Hún snýst um það að svelta flóttafólk til hlýðni, treysta á að með því að henda því út á götuna allslausum muni þau loksins drífa sig heim. Þau hljóti að hanga hérna vegna þess að þau fá 10.000 kr. á viku og búi í herbergi fullu af myglu með bláókunnugu fólki. Það hefur aðdráttarafl sem þarf að taka út, er það ekki? Það er það sem þetta gengur út á. Ég hvet ykkur öll til að segja já við þessari breytingartillögu um að fella þetta ákvæði brott.