153. löggjafarþing — 81. fundur,  15. mars 2023.

útlendingar.

382. mál
[19:04]
Horfa

Eva Sjöfn Helgadóttir (P):

Forseti. Ég verð að vera sammála hv. þm. Arndísi Önnu Kristínardóttur Gunnarsdóttur þegar hún segir að þetta sé sorgardagur. Þetta er sorgardagur í réttindum flóttamanna og þá sérstaklega þetta ákvæði, að fólk fái ekki þjónustu. Hvert erum við komin? Ætlum við að svelta fólk til hlýðni? Er það það sem við ætlum að standa fyrir og það sem okkur finnst í lagi að gera? Það er bara ekki í lagi. Það virkar ekki. Það er ekki nægilega gott svar að segja: Þau eiga bara að fara. Það er ekki lausn og hvað ef það verður ekki svo? Afleiðingarnar eru ófyrirséðar og hver ætlar að taka ábyrgð á því heimilisleysi, neyðinni sem þetta hefur í för með sér, sérstaklega þegar (Forseti hringir.) stjórnarliðar eru ekki einu sinni sammála um hvernig á að gera þetta allt saman? Ég segi já.