153. löggjafarþing — 81. fundur,  15. mars 2023.

útlendingar.

382. mál
[19:09]
Horfa

Arndís Anna Kristínardóttir Gunnarsdóttir (P):

Herra forseti. Í 3. mgr. 45. gr. núgildandi laga um útlendinga segir, með leyfi forseta:

„Nú nýtur barn yngra en 18 ára alþjóðlegrar verndar samkvæmt kafla þessum og eiga þá foreldrar þess jafnframt rétt til verndar enda þyki sýnt að þeir hafi farið með forsjá barnsins og hyggist búa með barninu hér á landi.“

Breytingin sem ég er hér að leggja til að verði felld brott úr frumvarpinu snýst um að láta ekki börn sem koma hér í boði íslenskra stjórnvalda, svokallaðir kvótaflóttamenn — þau eiga ekki þennan rétt. Hvers vegna? Það veit enginn. Snýst þetta um skilvirkni? Snýst þetta um að samræma löggjöfina löggjöf annarra ríkja? Nei. Þetta snýst ekki um það. Þetta er fullkomlega tilgangslaus réttindaskerðing fólks á flótta. Ég segi já við því að fella þetta brott.