153. löggjafarþing — 81. fundur,  15. mars 2023.

útlendingar.

382. mál
[19:25]
Horfa

Arndís Anna Kristínardóttir Gunnarsdóttir (P):

Herra forseti. Hv. þm. Bryndís Haraldsdóttir svarar strámanni um að það sé ekki verið að lögfesta hérna þvingaðar læknisrannsóknir. Það er heldur ekki það sem er verið að gagnrýna. Rauði krossinn á Íslandi hefur verið að gagnrýna þetta ákvæði. Þetta snýst um það — við skulum taka Covid-bólusetningarvottorðin og hafa þau í huga þegar við hugsum um þetta. Þetta snýst um að það sé hægt að afla vottorða um einstakling gegn hans vilja, gegn hans hagsmunum. Samkvæmt núgildandi lögum er hægt að afla vottorða til að tryggja að það sé ekki verið að setja veika manneskju í flug. Það er í samræmi við hagsmuni viðkomandi. Þess vegna er það heimilt; svokölluð „Fit to fly“-vottorð.

Þetta ákvæði snýst ekki um það. Þetta snýst um bólusetningarvottorðin; annað sem Útlendingastofnun hefur gert og reynt sem hefur verið úrskurðað ólögmætt. Það er óumdeilt að þetta er inngrip í friðhelgi einkalífs. Rauði krossinn á Íslandi fer í löngu máli yfir þetta í sinni umsögn. Ég hvet alla til að lesa það, þó að það sé orðið um seinan núna, þannig að þau kynni sér hvað þau eru að samþykkja. Það er þannig að það má koma með inngrip í friðhelgi einkalífs fólks að ákveðnum skilyrðum uppfylltum. Það þarf að vera byggt á skýrri lagaheimild, (Forseti hringir.) stefna að lögmætu markmiði og ganga ekki lengra en nauðsynlegt er. Það þarf að vera um brýna nauðsyn að ræða vegna réttinda (Forseti hringir.) annarra, til þess að firra glundroða eða glæpum í þágu almannaheilla eða í þágu þjóðaröryggis. Það að flytja einstaklinga úr landi (Gripið fram í: Tíminn er búinn. )uppfyllir ekkert — ekkert af þessum skilyrðum. (Forseti hringir.) Það þýðir það að þetta er brot á friðhelgi einkalífs. Ég segi já.