153. löggjafarþing — 81. fundur,  15. mars 2023.

útlendingar.

382. mál
[19:33]
Horfa

Andrés Ingi Jónsson (P):

Herra forseti. Rétt fyrir 2. umr. frumvarpsins sendu Samtökin '78 neyðarkall inn á þing og sögðu að það ákvæði sem hér er lagt til að fella brott myndi koma niður á hinsegin kvótaflóttafólki, örlitlum viðkvæmum hópi sem stjórnvöld stæra sig af að hafa tekið á móti. Nei, stjórnvöld ætla ekki að leyfa þeim að njóta sama réttar til fjölskyldusameiningar, sem okkur hefur kannski bara þótt eðlilegt að fólk nyti þegar það kemur hingað í boði stjórnvalda. Þetta var eitt af því sem stjórnarliðar töluðu um að þyrfti að skoða sérstaklega fyrir 3. umr. Og hvernig er það afgreitt í nefndaráliti meiri hlutans? Með leyfi forseta: „Meiri hlutinn bendir á að íslensk stjórnvöld hafa lagt áherslu á að taka á móti hinsegin kvótaflóttafólki undanfarin ár.“ Svo er farið út í eitthvað allt annað og farið að tala um að það eigi að taka vel á móti hinsegin flóttafólki sem kemur hingað af sjálfsdáðum. Það er ekkert fjallað um álitaefnið sem Samtökin '78 bentu sérstaklega á. Þau hafa kannski bara verið að misskilja þetta eins og öll hin mannréttindasamtökin (Forseti hringir.) sem gagnrýna svo að segja hverja einustu grein í þessu frumvarpi. En einhvern veginn vita stjórnarliðar betur en hagsmunasamtök hinsegin fólks um það hvernig hinsegin flóttafólk stendur í glímu við stjórnvöld.