153. löggjafarþing — 81. fundur,  15. mars 2023.

útlendingar.

382. mál
[19:40]
Horfa

Andrés Ingi Jónsson (P):

Herra forseti. Hér er lagt til að fella brott 3. gr. frumvarpsins, sem fjallar um að veita formanni kærunefndar útlendingamála einum heimild til að úrskurða í málum er varða endurtekna umsókn. Eins og við fórum yfir hér áðan, þá er búið að grauta saman ólíkum gerðum umsókna þannig að það sem er hægt að kalla endurtekna umsókn er blandað saman við það sem mætti kalla beiðni um endurupptöku og verið er að láta það í hendur eins manns að úrskurða um þetta. Hér rétt áðan ákvað meiri hlutinn að rýra rétt fólks sem stendur að baki þessum umsóknum. Hér gefst tækifæri til þess að láta þó a.m.k. fjölskipaða kærunefnd ákveða hvort það hafi verið réttmætt eða ekki, en ekki setja það vald í hendur eins manns því það væri hrein og klár skerðing á réttindum og öryggi fólksins.