Bráðabirgðaútgáfa.

153. löggjafarþing — 82. fundur,  20. mars 2023.

greinargerð um Lindarhvol, orð þingmanns í atkvæðagreiðslu.

[15:05]
Horfa

Sigmundur Davíð Gunnlaugsson (M):

Herra forseti. Ég kem upp til að spyrja hæstv. forseta út í sama mál og nefnt var hér áðan. Hvernig er hægt að ætlast til þess af þingnefnd að hún fjalli um mál án þess að hafa aðgang að og mega ræða grunngögn málsins, þá vinnu sem hefur átt sér stað við það mál? Hæstv. forseti hefur tjáð sig um þetta núna um helgina og nú liggja fyrir lögfræðiálit, þingið lét vinna lögfræðiálit, Miðflokkurinn lét fyrir margt löngu vinna lögfræðiálit um þetta og nú virðast fjölmiðlar komnir með lögfræðiálit sem öll benda til þess að það beri að birta þessa skýrslu sem var send þinginu, hæstv. forseti á sínum tíma tók við henni fyrir hönd þingsins og nú spyr umboðsmaður Alþingis um málið. Í ljósi þess velti ég fyrir mér: Er ekki tímabært, hæstv. forseti, að aflétta leyndinni af þessu skjali sem var afhent þinginu og þingið þarf nú að vinna með?