Bráðabirgðaútgáfa.

153. löggjafarþing — 82. fundur,  20. mars 2023.

greinargerð um Lindarhvol, orð þingmanns í atkvæðagreiðslu.

[15:14]
Horfa

Inga Sæland (Flf):

Herra forseti. Ég þakka fyrir þetta innlegg þitt. En ummælum sem hv. þm. Þórunn Sveinbjarnardóttir kom með hér úr ræðustóli var ekki beint gegn stjórnmálaflokki eins og venjan er hér, þar sem er verið að tala um að Flokkur fólksins eða Miðflokkurinn eða Sjálfstæðisflokkur eða hinn og þessi flokkur sé svona eða hinsegin, heldur beindi hún orðum sínum beint að mér persónulega og minni persónu, minni æru úr ræðustóli Alþingis. Ef það er í rauninni ekki vanvirðandi framkoma — leyfist að vera með vanvirðandi framkomu hér úr æðsta ræðustóli landsins? Er það leyfilegt samkvæmt þessum siðareglum? Til hvers erum við með þær, virðulegur forseti? Hún kallaði það að ég væri hér að flytja ódýran og ógeðfelldan popúlisma, sem má alveg vera og er bara eðlileg skoðun og allt í lagi með það, ég get tekið því eins og hver sem er, en hún bætti við, sem byggir ekki á staðreyndum — sem er rangt — heldur byggir á útlendingaandúð. (Forseti hringir.) Það er ekki einu sinni stigsmunur á útlendingaandúð samkvæmt greiningu (Forseti hringir.) og útlendingahatri. Útlendingahatur er rasismi.