Bráðabirgðaútgáfa.

153. löggjafarþing — 82. fundur,  20. mars 2023.

aðgangur að heilbrigðisþjónustu.

[15:23]
Horfa

forsætisráðherra (Katrín Jakobsdóttir) (Vg):

Herra forseti. Ég held að það sé mikil einföldun að segja þegar stjórnmálaflokkar eða hreyfingar marka sína stefnu á landsfundi að sú stefna sé til heimabrúks. Auðvitað er hún það ekki. Það er hún sem leggur línurnar fyrir kjörna fulltrúa. Eins og kom fram í mínu fyrra svari þá beitti heilbrigðisráðherra Vinstri grænna, hæstv. matvælaráðherra Svandís Svavarsdóttir, sér fyrir þessari stefnu í sinni tíð sem heilbrigðisráðherra sem gekk út á það að styðja betur við þessar grunnstoðir í kerfinu, því álitamálin í heilbrigðisþjónustu eru ekki bara um að tryggja jafnt aðgengi sem ég tel, eins og hv. þm. þingmaður, að við getum flest verið sammála um. Þau snúast líka um hvaða ramma við sníðum utan um þá samninga sem gerðir eru. Ég vil bara rifja upp skýrslu Ríkisendurskoðunar t.d. um samninga við sérgreinalækna þar sem gerðar voru mjög alvarlegar athugasemdir við samningagerð ríkisins. Það hefur valdið því að ekki hefur náðst að ná samningum við þessa mikilvægu starfsstétt af því aðilar eru ekki sammála um hvaða ramma eigi að sníða. Ég hlýt að gera því skóna að hv. þm. þingmaður sé mér sammála um að sá rammi verði að vera skýr (Forseti hringir.) og hann verði að vera í almenna þágu.