Bráðabirgðaútgáfa.

153. löggjafarþing — 82. fundur,  20. mars 2023.

birting greinargerðar um sölu Lindarhvols.

[15:46]
Horfa

forsætisráðherra (Katrín Jakobsdóttir) (Vg):

Herra forseti. Svo ég ljúki því aðeins sem ég sagði, bara svo ég fari rétt með, þá geta gögn talist vinnugögn þótt þau hafi verið send öðrum samkvæmt upplýsingalögum. En hver er munurinn á því að vera skylt að birta gögnin, hvenær manni er skylt að birta þau ekki og hvenær maður hefur heimild til að birta gögnin? Það er eiginlega spurning hv. þingmanns. Ég held því miður að í þessum efnum sé hægt að rökstyðja hvora niðurstöðuna sem er lögfræðilega. Ég held að það sé hægt og við höfum séð það gert. Því snýst stóra málið um að það væri æskilegast, að mínu viti, að forsætisnefnd gæti bara einfaldlega náð einhvers konar sameiginlegri niðurstöðu, þar með talið forseti þingsins, um meðferð þessa gagns því ég held að við munum ekki leysa það með birtingu lögfræðiálita sem hvert vísar í sína áttina, eins og við höfum séð. Þarna held ég að þurfi hreinlega að eiga pólitískt samtal um þessi mál.