Bráðabirgðaútgáfa.

153. löggjafarþing — 82. fundur,  20. mars 2023.

Samráðsleysi dómsmálaráðherra við ríkisstjórn varðandi rafvarnarvopn.

[16:11]
Horfa

forsætisráðherra (Katrín Jakobsdóttir) (Vg):

Frú forseti. Ég þakka hv. þingmanni fyrir að hefja þessa umræðu sem snýst, eins og hv. þingmaður fór yfir í framsögu sinni, um álit umboðsmanns Alþingis í svokölluðu rafbyssumáli. Ég held að það sé mikilvægt að byrja þar að segja, og það er algjörlega skýrt í lögum, að það er á ábyrgð hvers ráðherra fyrir sig að meta hvort ákvörðun í tilteknu máli feli í sér mikilvæga stefnumörkun eða áherslubreytingu þannig að þau skuli bera upp í ríkisstjórn. Þetta mál snýst um það hvaða mælistiku á að leggja á það lögbundna mat ráðherra hvort bera eigi upp mál í ríkisstjórn eða ekki.

Í áliti umboðsmanns er fjallað um það að framganga hæstv. dómsmálaráðherra og þau vinnubrögð sem voru viðhöfð í þessu máli hafi ekki verið í samræmi við góða stjórnsýsluhætti. Ég hef verið spurð um mitt mat á því og það hefur komið fram í mínu máli að ég tel að það hefði verið betri stjórnsýsla hjá hæstv. ráðherra að ræða málið á ríkisstjórnarfundi áður en formleg ákvörðun var tekin. Því kom ég til dómsmálaráðherra þann dag sem hann birti umrædda grein í Morgunblaðinu og tjáði honum að ég teldi málið þannig vaxið að taka þyrfti umræðu um það við ríkisstjórnarborðið. Og það var gert síðar, hins vegar eftir að ákvörðun var tekin.

Það hvaða mál teljast mikilvæg stjórnarmálefni verður alltaf í einhverjum tilvikum háð mati. Og eins og þetta mál sýnir okkur er ekki unnt að útiloka að matið geti verið ólíkt milli ráðherra. Að einhverju leyti hlýtur slíkt mat að vera byggt á pólitískum sjónarmiðum og að því leyti þarf það kannski ekki að koma á óvart að ég hafði aðra sýn en hæstv. dómsmálaráðherra á það hvað teljist vera áherslubreyting. Svo gilda einnig, getum við sagt, almenn viðmið sem skilgreind eru nánar í lögum. Ég er sammála því sem umboðsmaður segir í sínu áliti, að játa verður ráðherra töluvert svigrúm til mats á því hvort tiltekin ákvörðun hafi slíkt í för með sér. Þess ber að geta í þessu samhengi að umboðsmaður tekur sérstaklega fram að hann dregur ekki í efa stjórnskipulega heimild dómsmálaráðherra til að taka umrædda ákvörðun eða gildi athafnar í þessu sambandi. En hvað varðar bréf umboðsmanns Alþingis til mín, og það varðar spurningu hv. þingmanns hvort ég telji rétt að bregðast við því áliti eða ekki, þá beinir hann því sérstaklega til mín að skoða hvort unnt sé að búa þannig um hnúta, og nefnir þar annars vegar starfsreglur ríkisstjórnar og hins vegar siðareglur ráðherra, að komið sé í veg fyrir að þetta endurtaki sig.

Í bréfi mínu til umboðsmanns bendi ég á að töluverðar breytingar voru gerðar á stjórnarráðslögunum árið 2011, eins og hv. þingmaður vék að í sínu máli í kjölfar umræðu eftir hrun, einmitt til þess að þétta samráð og samhæfingu milli starfa ráðherra. Þar vil ég helst nefna veigamikið hlutverk ráðherranefnda við að tryggja upplýsingagjöf milli ráðherra og ráðuneyta og vandaðan undirbúning mála fyrir ríkisstjórn. Raunar er það svo að það eru einar sjö ráðherranefndir starfandi sem eiga að stuðla að því að forsætisráðherra, sem situr í þeim öllum, sé upplýst um áform ráðuneyta og geti þá beint því til ráðherra að bera upp mál í ríkisstjórn ef þörf krefur. Þar af er ráðherranefnd um samræmingu mála sem getur í raun tekið á öllu því sem upp kemur sem ekki er hægt að fella undir einhvern sérstakan málaflokk.

Hvað varðar samhæfingarhlutverk forsætisráðuneytisins þá heldur það líka utan um yfirlit yfir verkefni í stjórnarsáttmála flokkanna og fylgist með framvindu þeirra. Með þessum ráðherranefndum sem og þessari eftirfylgni með stjórnarsáttmála hefur forsætisráðherra hverju sinni, sem forystumaður ríkisstjórnar, tiltölulega góða yfirsýn yfir helstu málefni ríkisstjórnar þannig að hann fái betur sinnt því sem hefur verið kallað samhæfingar- og verkstjórnarhlutverk og stuðlað að því að mál sem eiga erindi inn á borð ríkisstjórnar rati þangað.

Við reynum einnig í forsætisráðuneytinu að vera vakandi fyrir því í störfum okkar hvort mál annarra ráðuneyta séu þess eðlis að taka þurfi þau til umræðu í ríkisstjórn, auk þess sem að sjálfsögðu er oft leitað til forsætisráðuneytisins um ráðgjöf í þeim efnum. Hins vegar, eins og kemur einnig fram í bréfinu til umboðsmanns, þá er ríkisstjórn Íslands ekki fjölskipað stjórnvald og takmarkar það að nokkru leyti valdheimildir forsætisráðherra. Það er auðvitað mjög ólíkt því sem t.d. þekkist frá Svíþjóð þar sem hver einasta reglugerð er samþykkt í ríkisstjórn. Þannig að í okkar kerfi er það sá ráðherra sem ber stjórnskipulega ábyrgð á málinu hverju sinni sem að endingu ber ábyrgð á því mati hvort bera skuli málið upp í ríkisstjórn eða ekki. Og eins og ég kom að áðan þá er það mat í senn pólitískt og lagalegt.

Ég verð að segja það að eins og kom fram í mínu bréfi þá tel ég að það sé vissum vandkvæðum bundið að skrifa það algerlega út í verklagsreglur hvað varðar mat ráðherra hverju sinni. En að sjálfsögðu mun ég bregðast við erindi umboðsmanns með þeim hætti að ég mun taka þær ábendingar til skoðunar og reyna að greina hvernig megi þétta samráðið enn frekar með tilliti til þeirra ábendinga sem þar koma fram. Til dæmis stendur nú þegar yfir endurskoðun á siðareglum ráðherra og ég mun taka þetta til umræðu í þeirri vinnu.

Umboðsmaður ræðir mikilvægi þess að ríkisstjórnin birtist borgurunum sem samhentur hópur stjórnenda. Nú er það ekkert launungarmál að ríkisstjórnarflokkarnir eru oft og tíðum með ólíka sýn á tiltekin málefni og með ólíkar skoðanir, þannig að ólíkt mat okkar dómsmálaráðherra ætti kannski ekki endilega að koma á óvart. Ég get hins vegar tekið undir það að það er hlutverk okkar allra í ríkisstjórn að finna lausnir þegar flokkar eða einstaka ráðherrar eru ekki fullkomlega sammála, þannig að ég er sammála umboðsmanni um að það hvílir auðvitað rík skylda á ráðherrum ríkisstjórnarinnar, og ekki síst forsætisráðherra, að reyna að leiða slíkt samtal og leiða fram lausnir.

Þetta mál, sem sprettur af því að við dómsmálaráðherra vorum ekki á sama máli eða mátum það með ólíkum hætti hvort taka þyrfti málið upp í ríkisstjórn áður en ákvörðun var tekin í því — þegar mér varð ákvörðunin kunn þá óskaði ég að sjálfsögðu strax eftir því að málið yrði tekið upp í ríkisstjórn og það var gert. Það er hins vegar mikilvægt að hafa í huga að þó að mál sé rætt á ríkisstjórnarfundi þýðir það ekki endilega að ríkisstjórnin eigi að komast að sameiginlegri niðurstöðu um það hvernig ráðherrar skuli haga málum á sínu málefnasviði. Og aftur kemur að því að ríkisstjórnin er ekki fjölskipað stjórnvald. Því er ekki óeðlilegt að upp komi sú staða að ráðherrar séu ekki sammála pólitískt um stefnur eða ákvarðanir í einstökum málum eða að þeir tjái sig opinberlega um ólíka sýn sína eða sinna flokka og málefni. Þannig að ég get ekki tekið undir það sjónarmið að það rýri traust almennings á störfum ríkisstjórnarinnar að ráðherra ræði opinberlega um sýn sína í einstökum málum.

Ég vil síðan segja það hér að lokum út frá orðum hv. þingmanns bara efnislega um málið sjálft, sem er svo sem ekki endilega til umræðu hér, að þegar þessi ákvörðun lá fyrir þá sagði ég ekki eingöngu að mér þætti mikilvægt að það yrði rætt í ríkisstjórn, sem var og gert, heldur einnig að það yrði tekið til umræðu hér á Alþingi og þá ekki síst hjá hv. allsherjar- og menntamálanefnd. Ég ítreka þá skoðun mína að ég tel þetta vera málefni sem eigi að ræða á vettvangi þingsins þó að það sé ekki beinlínis þingmál undir því að ég tel mikilvægt að þetta mál fái góða og vandaða umfjöllun, ekki síst hér á Alþingi Íslendinga.