Bráðabirgðaútgáfa.

153. löggjafarþing — 82. fundur,  20. mars 2023.

Samráðsleysi dómsmálaráðherra við ríkisstjórn varðandi rafvarnarvopn.

[16:32]
Horfa

Halla Signý Kristjánsdóttir (F):

Virðulegi forseti. Hér er til umræðu samráðsleysi hæstv. dómsmálaráðherra í ríkisstjórn varðandi rafvarnarvopn. Ríkisstjórn er ekki fjölskipað stjórnvald og hver ráðherra hefur yfir sínu málasviði að segja, auðvitað innan þess ramma sem kveðið er á um í stjórnarskrá, lögum um Stjórnarráðið og í reglum um starfshætti ríkisstjórnar. Þar til viðbótar koma til sjónarmið um hvað er æskilegt og eðlilegt að fjalla um á ríkisstjórnarfundum og venjur sem hafa skapast.

Það er ekki um það deilt að hæstv. dómsmálaráðherra hefur lagaheimild fyrir því að undirrita reglugerð um heimild lögreglu til að nota rafvarnarvopn. Við getum svo tekist á um hvað okkur finnst um það. Hér er vissulega um mikla stefnubreytingu að ræða, bæði í menningarlegu tilliti og breyting á því hvaða tæki og úrræði lögreglan mun hafa. Skiljanlega verða viðbrögð við þessu hér á Alþingi og eins úti í samfélaginu, annað væri óeðlilegt. Traust er lykilþáttur í heilladrjúgu samstarfi og samvinnu hverrar ríkisstjórnar. Í 17. gr. stjórnarskrárinnar segir:

„Ráðherrafundi skal halda um nýmæli í lögum og um mikilvæg stjórnarmálefni. Svo skal og ráðherrafund halda, ef einhver ráðherra óskar að bera þar upp mál.“

Í skýringum sérfræðinefndar um endurskoðun stjórnarskrár frá desember 2005 segir um 17. gr., með leyfi forseta:

„Megintilgangur ríkisstjórnarfunda er fyrst og fremst að skapa ráðherrum vettvang fyrir það pólitíska samráð sem nauðsynlegt er að hafa um stjórn landsins og stefnumótun á hverjum tíma. Af því leiðir að ráðherrarnir hljóta að taka þar upp öll þau mál er þeir telja sig þurfa pólitískan stuðning við eða að minnsta kosti nauðsynlegt að ráðgast við aðra ráðherra um.“

Umboðsmaður Alþingis finnur að þeim vinnubrögðum hæstv. dómsmálaráðherra að hann hafi látið hjá líða að bera þessa umræddu breytingu á reglugerð um valdbeitingu lögreglumanna og meðferð og notkun valdbeitingartækja- og vopna upp á ríkisstjórnarfundi Umboðsmaður Alþingis dregur ekki í efa stjórnskipulega heimild ráðherra til umræddrar ákvarðanir eða gildi athafnar hans í því sambandi.

Virðulegi forseti. Svo það sé sagt þá er ég sátt við umrædda breytingu á reglugerð enda hafa lögreglumenn fagnað þessari breytingu og við höfum í huga að fram undan er mikil vinna við að innleiða þessi tæki og þjálfa lögreglufólk í að nota þau. Lögreglan er þegar búin kylfum, úðavopnum, gasvopnum, skotvopnum og sprengivopnum. Öllum lögreglumönnum er vitaskuld veitt grunnþjálfun í notkun þessara vopna og reglum um þau og nú til viðbótar rafvarnarvopnum.

Virðulegi forseti. Burt séð frá öllu þessu finnst mér alltaf farsælast að ráðherrar vinni með samvinnu að leiðarljósi því með því næst samstaða um mikilvægar breytingar í átt að betra samfélagi fyrir okkur öll.