Bráðabirgðaútgáfa.

153. löggjafarþing — 83. fundur,  20. mars 2023.

næstu alþingiskosningar.

816. mál
[17:29]
Horfa

Fyrirspyrjandi (Björn Leví Gunnarsson) (P):

Forseti. Spurning mín til hæstv. forsætisráðherra er mjög einföld: Hvenær verða næstu kosningar? Hér á landi hafa verið haustkosningar árin 1949, 1959, 1979, síðan 2016, 2017 og 2021. Þær ríkisstjórnir sem voru áður kjörnar að hausti breyttu allar dagsetningu kosninga þannig að aftur yrði kosið að vori. Það var því nýlunda að ákveðið var að kjósa aftur að hausti árið 2021 en breyta ekki kjördegi þannig að það yrðu aftur vorkosningar eftir stutt kjörtímabil ríkisstjórnarinnar sem féll þar á undan. Ég hef talað nokkrum sinnum um þetta málefni hér í ræðustól þingsins við hæstv. ráðherra og við héldum t.d. sérstaklega umræðu um kosningar að hausti í fyrra. Almennt séð þá kom sú skoðun upp hjá þeim sem tóku þátt að vorkosningar væru heppilegasta fyrirkomulagið, t.d. vegna fjárlagagerðar og einnig má nefna þar mikilvægt eftirlitshlutverk þingsins því að þegar kosningar eru að hausti til þá eru ráðherrar svo til eftirlitslausir síðustu mánuðina fyrir kosningar, frá því að þing fer frá í byrjun sumars og í raun bara þangað til kosningar hefjast. Svoleiðis var það núna fyrir kosningarnar 2021 og þá virðist það hafa leitt til alls konar loforða um fjármuni á síðustu metrunum fyrir kosningar. Kannski efast enginn um mikilvægi þess að styrkja t.d. Píeta-samtökin um 25 millj. kr., 10 milljónir til Íþróttasambands fatlaðra næstu þrjú árin þar á eftir, 134 milljónir í stofnframlag til Lýðháskólans á Flateyri fyrir byggingu stúdentagarða. Svona loforð rétt fyrir kosningar eru mjög áhugaverð. Þetta eru ákvarðanir sem á að taka í fjárlagavinnunni en ekki að vera loforð sem ráðherrar eiga bara að spreða hér fram og til baka rétt fyrir kosningar með einhverjum styrkjum hingað og þangað. Spurningin er því í rauninni dálítið einföld: Þurfum við að þola þetta ástand aftur með tilheyrandi álagi á fjárlagavinnuna í kjölfar kosninganna eða ætlar forsætisráðherra að breyta fyrirkomulagi fjárlagavinnu fyrir kosningarnar, nú eða þá að kjósa að vori?