Bráðabirgðaútgáfa.

153. löggjafarþing — 83. fundur,  20. mars 2023.

tillaga til þingsályktunar um vistmorð.

192. mál
[17:43]
Horfa

forsætisráðherra (Katrín Jakobsdóttir) (Vg):

Frú forseti. Ég þakka hv. þingmanni fyrir fyrirspurnina. Eftir að Alþingi vísaði þessari þingsályktunartillögu til ríkisstjórnar lagði ég til, í minnisblaði til ríkisstjórnar 13. september sl., að í samræmi við skiptingu stjórnarmálefna milli ráðuneyta samkvæmt forsetaúrskurði myndi utanríkisráðherra verða falið að taka þessa tillögu til skoðunar í samráði við dómsmálaráðherra og umhverfis-, orku- og loftslagsráðherra. Ég þarf svo sem ekki að rifja upp fyrir hv. þingmanni um hvað tillagan var en geri ég það nú samt og í stuttu máli sagt var lagt til að Alþingi myndi álykta að fela ríkisstjórn að leggja tillögu fyrir þing aðildarríkja Alþjóðlega sakamáladómstólsins um að vistmorð yrði viðurkennt í Rómarsamþykktinni sem brot á alþjóðalögum sem falla undir lögsögu dómstólsins og að leggja fram sömuleiðis frumvarp til laga á Alþingi um að vistmorð yrði bannað að landslögum.

Í nefndaráliti meiri hluta þingnefndarinnar er ákveðinn leiðarvísir um hvað þurfi að gera og greina betur áður en tillaga af þessu tagi er samþykkt. Það er í fyrsta lagi frekari greining á íslensku lagaumhverfi og þeim ákvæðum sem veita umhverfinu réttar- og refsivernd og þar er nefnd skörun við tiltekin ákvæði í íslenskri löggjöf, t.d. í almennum hegningarlögum, sem og lagaákvæðum og réttarúrræðum sem miða að því að vernda umhverfi og náttúru landsins. Hins vegar er sérstaklega fjallað um í minnisblaði utanríkisráðuneytisins til þingnefndarinnar að aukið álag hafi verið á Alþjóðlega sakamáladómstólnum. Því telji utanríkisráðuneytið að tillagan þurfi frekari skoðun áður en Ísland leggi til útvíkkun á lögsögu dómstólsins þannig að hún nái til nýrra flokka brota. Þannig að ef kæmi til þess að ákveðið yrði að leggja fram tillögu á vettvangi dómstólsins af Íslands hálfu þyrfti vandaðan undirbúning og samráð á alþjóðavettvangi.

Ég vil segja það að þessi umræða er í hraðri þróun á alþjóðavettvangi og bæði utanríkisráðherra og ég sjálf höfum fylgst náið með þróun hennar, bæði samkvæmt alþjóðalögum og gagnvart Alþjóðlega sakamáladómstólnum. Hv. þingmaður nefndi hér ákall frá Evrópuráðsþinginu um að breyta Rómarsamþykktinni þannig að vistmorð verði viðurkennt sem brot á alþjóðalögum og ráðherranefnd Evrópuráðsins vinnur nú að svari við tilmælum Evrópuráðsþingsins. Það var stofnaður undirhópur í lok síðastliðins árs, undirstýrihópur um mannréttindamál, sem hefur verið falið að skoða möguleika — og nú er ég að vitna í vettvang Evrópuráðsins — á nýjum réttarheimildum um mannréttindi í samhengi við umhverfismál og þar er m.a. verið að skoða þetta.

Við gegnum formennsku í Evrópuráðinu á fyrri hluta þessa árs og ein af okkar áherslum þar hefur verið ýta undir og ýta áfram umræðunni um réttinn til heilnæms umhverfis sem mannréttindamál þannig að íslenska formennskan styður þessa undirbúningsvinnu Evrópuráðsins. Í tengslum við fund mannréttindanefndar Evrópuráðsins 2. maí stendur Ísland fyrir ráðstefnu um réttinn til heilnæms umhverfis sem umhverfis-, orku-, og loftslagsráðherra mun sækja fyrir hönd Íslands.

Breyting á Rómarsamþykktinni yrði gríðarstórt verkefni í samvinnu allra samningsríkja og bent hefur verið á að verkefni Alþjóðlega sakamáladómstólsins eru þegar umfangsmikil og flókin og verulegt álag hefur skapast þar vegna átaka víða um heim, ekki síst vegna árásarstríðs Rússa í Úkraínu. Ísland er meðal þeirra ríkja sem hafa brugðist við ákalli um aukinn fjárhagslegan stuðning við dómstólinn vegna þessa og það er mikilvægt að gæta þess að standa vörð um virkni dómstólsins áður en honum verða færð enn frekari verkefni.

En í stuttu máli sagt er Ísland að taka virkan þátt í umræðu um vistmorð, ekki bara á vettvangi Evrópuráðsins heldur líka á vettvangi Sameinuðu þjóðanna og á vettvangi norræns samstarfs. Ég held að það skipti mjög miklu máli að við nálgumst þetta sem verkefni sem er í raun og veru, og það er ástæðan fyrir því að hæstv. utanríkisráðherra fer með þetta mál, verkefni sem fer yfir öll landamæri. Ég held persónulega að það hljóti í raun og veru bara að vera tímaspursmál hvenær þessi mál verða að stóra málinu á vettvangi mannréttindamála en það verður flókið að útfæra það. Ég vonast til þess að leiðtogafundur Evrópuráðsins sendi frá sér skilaboð í þessum efnum. Ég vonast til þess. Ég veit að það verður flókið að ná sameiginlegri niðurstöðu í hópi 46 aðildarríkja en Ísland er að setja þetta á dagskrá.

Að lokum vil ég nefna örstutt að vistmorð er meðal þess sem nefnt er í tíu punkta friðartillögu forseta Úkraínu, Volodymyr Zelenskí, þar sem óskað er eftir því að þetta verði tekið til sérstakrar athugunar, þ.e. umhverfisskaðinn sem innrás Rússa í Úkraínu hefur valdið. Í heimsókn okkar utanríkisráðherra til Úkraínu í síðustu viku var rætt m.a. um hvort þetta gæti mögulega átt erindi inn á þennan leiðtogafund Evrópuráðsins.