Bráðabirgðaútgáfa.

153. löggjafarþing — 83. fundur,  20. mars 2023.

samkeppnishæfni Íslands í alþjóðaviðskiptum og fjárfesting erlendra aðila.

176. mál
[18:56]
Horfa

menningar- og viðskiptaráðherra (Lilja Alfreðsdóttir) (F):

Virðulegi forseti. Ég vil ítreka að það er ekkert nýtt að kynna grunnþætti íslensks efnahagskerfis til að fá hækkun á lánshæfismati og er það í raun og veru gert á hverju einasta ári. Þá er farið fyrir svokallaðar lánshæfisnefndir sem ég þekki vel úr störfum mínum í Seðlabanka Íslands þegar lánshæfismálin voru þar. Þetta var iðulega gert til að kynna stöðuna, hvort sem hún var góð eða einhverjar áskoranir voru til staðar, og því er það ekkert nýtt — hljómar kannski þannig, en svo er ekki.

En aftur að samkeppnishæfni og gjaldmiðlum og því hvort við séum með krónu, evru, dollar eða hvað það nú er. Ástæðan fyrir því að ég er þeirrar skoðunar að krónan henti íslenska hagkerfinu er einfaldlega sú að þrátt fyrir allt eru lífskjör hér ein þau bestu í veröldinni. Við höfum náð að vera með einar hæstu þjóðartekjur á hvern íbúa og það er mikill hagvöxtur. Allar þessar útflutningsgreinar okkar eru í miklum vexti og ef við lítum á þær tölur þá held ég, ef ég man það rétt úr síðustu Peningamálum, að vöxtur útflutningsgreina frá síðasta ári hafi a.m.k. verið 22%. Það sem við eigum að einblína á er að við erum því miður með halla á vöruskiptajöfnuðinum og þurfum að vinna að því að passa upp á að svo verði ekki, en ég held að þegar verðbólgan fer að minnka munum við snúa því í afgang.

En ástæðan fyrir því að það getur verið flókið fyrir okkar hagkerfi að vera með annan gjaldmiðil er sú að hagsveifla á evrusvæðinu og hér á oft ekki samleið. Við höfum oft upplifað mun meiri hagvöxt á Íslandi en á evrusvæðinu og koma nokkrir þættir að því, til að mynda er þjóðin hlutfallslega talsvert yngri en á evrusvæðinu og það er ekki skynsamlegt í heimi hagfræðinnar að taka upp gjaldmiðil sem lýsir í raun og veru ekki grunngerð viðkomandi hagkerfis. Þá kem ég enn og aftur inn á þetta auðlindahagkerfi sem við höfum. En ég er sammála hv. þingmanni að við þurfum alltaf að vera á tánum og þurfum að taka þessa umræðu. (Forseti hringir.) Ég fagna því að við séum að ræða þetta hér með þessum hætti, á þennan málefnalega hátt.