Bráðabirgðaútgáfa.

153. löggjafarþing — 83. fundur,  20. mars 2023.

mótun sjálfbærrar iðnaðarstefnu.

828. mál
[19:36]
Horfa

Fyrirspyrjandi (Andrés Ingi Jónsson) (P):

Frú forseti. Það gleður örugglega virðulegan forseta jafn mikið og þann sem hér stendur að hæstv. ráðherra sé búinn að taka báðum höndum þá tillögu sem borin var fram af Pírötum og Framsókn hér fyrir tveimur árum og sé bara að fara að hrinda þessu í framkvæmd — þó aðeins á eftir áætlun, við finnum ekkert að því. En einmitt þetta með tungumálið og að það megi ekki skilja þetta of þröngt, þá var hæstv. ráðherra þar í rauninni að enduróma það sem rætt var við umfjöllun um þessa tillögu á sínum tíma. Þar var einmitt lögð áhersla á að iðnaðarstefna gæti allt eins snúist um fjármálaþjónustu eða ferðaþjónustu eða örsmiðjur, að hugtakið væri á vissan hátt gallað vegna hugrenningatengslanna sem í því búa. Þannig að það er gott að heyra að verið sé að skoða þetta með dálítið opnum huga, eins lítið takmarkandi og hægt er, vegna þess að þetta snýst einmitt um að skapa umhverfi fyrir starfsemi sem við kannski þekkjum ekki einu sinni í dag, að búa þannig í haginn að hér geti vaxið hugmyndir og jafnvel heilu atvinnugeirarnir sem ekki eru til staðar í dag.

Rétt örstutt þá langar mig líka að undirstrika það sem kom fram undir lok máls hæstv. ráðherra varðandi það að leita lausna á loftslagsvandanum. Það var einmitt það sem vakti einna helst fyrir flutningsmönnum tillögunnar hér á 151. þingi. Þar var lögð rík áhersla á að mótun þessarar stefnu væri mikilvægt skref á þeim tíma til að móta framtíðarsýn Íslands eftir heimsfaraldur Covid en síðan ekki síst til að móta framtíðarsýn í ljósi loftslagsbreytinga. Þar skiptir máli að vera með markvissan stuðning þannig að aðgerðir skili sem mestu.