Bráðabirgðaútgáfa.

153. löggjafarþing — 83. fundur,  20. mars 2023.

mótun sjálfbærrar iðnaðarstefnu.

828. mál
[19:38]
Horfa

háskóla-, iðnaðar- og nýsköpunarráðherra (Áslaug Arna Sigurbjörnsdóttir) (S):

Virðulegi forseti. Við gætum örugglega rætt heillengi um hvað ætti að felast í stefnunni og hvernig við yrðum sátt við skilgreininguna á því hvað kæmi hér út. Ekki síst þarf stefnan auðvitað að vera raunhæf og verkefnið þarf að vera raunhæft þannig að við náum utan um það að búta það eitthvað niður til að ná raunverulegum árangri með það sem við setjum fram. Sjálfbær iðnaðarstefna gæti í rauninni tengst mjög mörgum ráðuneytum sem fara með hinn ýmsa iðnað eða grundvöll hans, eins og hv. þingmaður nefndi gagnvart loftslagsmálum og þeim áskorunum okkar. Við þurfum öll að vera með loftslagshattinn á okkur þegar við erum að ræða stefnu til lengri tíma og hvernig við ætlum að ná markmiðum stjórnvalda. Það ætlum við að gera í þessari vinnu gagnvart því að búa til stefnu um sjálfbæran þekkingariðnað sem við náum þá svolítið vel utan um í þessu ráðuneyti. Það má auðvitað minna hv. þingmann á að ráðuneytið er bara rétt rúmlega eins árs og við höfum verið að reyna að forgangsraða verkefnum eftir þörfum og taka vel utan um þau í hvert skipti. Nú höfum við hafist handa við þessa stefnu sem ég hlakka til að vinna í ráðuneytinu og eiga svo væntanlega fleiri samtöl við hv. þingmann um hvernig við náum árangri í að fylgja eftir skýrri stefnu í fjölbreyttum málaflokkum.