Bráðabirgðaútgáfa.

153. löggjafarþing — 84. fundur,  21. mars 2023.

Störf þingsins.

[13:42]
Horfa

Þorgerður Katrín Gunnarsdóttir (V):

Virðulegi forseti. Samkvæmt óformlegri könnun Innherja á Vísi, þar sem púlsinn er tekinn hjá fjölmörgum greinendum á markaði, er búist við a.m.k. 50 punkta stýrivaxtahækkun hjá Seðlabankanum á morgun. Aðrir ganga reyndar jafnvel svo langt að spá 100 punkta hækkun. Markaðurinn hefur einfaldlega misst trú á því að ríkisstjórnin, og eftir atvikum Seðlabankinn, geti náð verðbólgumarkmiðum sínum í bráð. Þetta þýðir einfaldlega á mannamáli að í 12 skipti í röð munu vextir því að öllum líkindum hækka og skilaboðin af vaxtaákvörðunarfundi morgundagsins verða eflaust eitthvað á þá leið að launahækkanir á vinnumarkaði, útgjaldafylleríi hins opinbera og halli á ríkissjóði gefi ekki tilefni til annars; sem sagt endurtekið efni og verðbólgan heldur áfram að gera fjölskyldunum í landinu lífið leitt, enn þá meira endurtekið efni, kynslóð fram af kynslóð. Það eru allir á nálum fyrir morgundaginn en þó ekki þeir sem standa utan krónuhagkerfisins.

Verandi aldursforseti þingsins vil ég sérstaklega koma hingað upp og óska eindregið eftir því að við sem hér sitjum, og þau sem fara fyrir ríkisstjórninni, komum saman og vinnum að sameiginlegri lausn á þessu stjórnlausa ástandi. Þar skiptir auðvitað stöðugt gengi líka máli og ég hygg að flestir þekki hvað við í Viðreisn teljum vera stóru lausnina en ég lýsi okkur tilbúin til að vinna með öllum hér að því að koma stjórn á þessar aðstæður og gera hvað í okkar valdi stendur til að koma í veg fyrir þrettándu stýrivaxtahækkunina sem að óbreyttu vofir yfir því það er einfaldlega of mikið undir. Okkur hér ber skylda til að gera tillögu að því að reyna þá leið, leið málamiðlana og leið sátta, um að ná núllpunkti svo við getum vonandi þaðan farið að varða leiðina að lausnum til framtíðar.

Þetta þarf ekki að vera svona, virðulegur forseti.