Bráðabirgðaútgáfa.

153. löggjafarþing — 84. fundur,  21. mars 2023.

Störf þingsins.

[13:47]
Horfa

Bryndís Haraldsdóttir (S):

Virðulegur forseti. Í síðustu viku vorum við gestgjafar vorfundar Norðurlandaráðs. Það er alltaf gaman þegar við fáum það hlutverk að taka á móti vinum okkar á Norðurlöndunum og aðalumræðuefni þessa fundar var orkumál og orkukrísan í Evrópu. Á fundinum var jafnframt samþykkt alþjóðastefnan okkar þar sem talað er um að Norðurlandaráð eigi að vinna í þágu lýðræðis, mannréttinda og grænna umskipta. Norðurlöndin hafa sameinast um það að vera í fararbroddi og verða sjálfbærasta svæði heims. Um þetta ríkir mikill einhugur í Norðurlandaráði.

Þó að það sé þannig að við í Norðurlandaráði séum almennt sammála í pólitík vegna þess að Norðurlöndin eru öll jú mjög lík velferðarsamfélög og við leggjum aðaláherslu á lýðræði, mannréttindi og velferðarsamfélagið okkar, þá verður það samt að segjast að það kom töluvert á óvart þegar það átti sér stað æsispennandi atkvæðagreiðsla um þingsályktunartillögu sem hafði verið unnin á vettvangi sjálfbærninefndar ráðsins í töluverðan tíma er laut því að draga úr framleiðslu á jarðefnaeldsneyti. Fyrir fram hafði ég alltaf átt von á því að þessi tillaga yrði samþykkt því að hún var hófleg en, mér alla vega mjög að óvöru, þá stóðu jafnaðarmenn upp og mæltu gegn því að tillagan yrði samþykkt. Norrænir jafnaðarmenn stóðu upp og mæltu gegn því að þessi ályktun yrði samþykkt. Þarna sameinuðust sem sagt flokkahóparnir Norrænt frelsi og Norrænir jafnaðarmenn um að fella þessa hóflegu tillögu sem laut að því að draga skyldi með tímanum úr framleiðslu á jarðefnaeldsneyti. Það er í rauninni ótrúlegt að atkvæðagreiðslan hafi farið með þessum hætti því á sama þingi var auðvitað ítrekuð sú stefna okkar að við ætlum að vera sjálfbærasta svæði í heiminum.(Forseti hringir.) Ég vona svo sannarlega, þrátt fyrir að þessi atkvæðagreiðsla hafi farið eins og hún fór, þá hafi það ekki með meginmarkmið Norðurlandaráðs að gera, við munum sameinast áfram um þessa sýn.