Bráðabirgðaútgáfa.

153. löggjafarþing — 84. fundur,  21. mars 2023.

utanríkis- og alþjóðamál 2022.

852. mál
[15:08]
Horfa

utanríkisráðherra (Þórdís Kolbrún R. Gylfadóttir) (S) (andsvar):

Herra forseti. Mig langaði að spyrja hv. þingmann hvað það er til viðbótar sem við getum gert, ef eitthvað, fyrir utan það að taka til skoðunar aðild að Evrópusambandinu ef við teljum upp það sem við höfum gert frá því að innrás Rússlands í Úkraínu hófst. Við höfum nefnilega uppfært allar áætlanir, ekki bara okkar heldur kannski fyrst og síðast í gegnum okkar samstarf. Það er Atlantshafsbandalagið að gera og það eru aðrir aðilar að gera og við fylgjum því, þeim uppfærðu áætlunum. Við höfum aukið samstarfið við JEF og NORDEFCO, við höfum aukið samstarfið og samtalið við Bandaríkin og það er ýmislegt sem hefur verið unnið þar og er í vinnslu og mun birtast okkur á næstu misserum og endurspegla þær breytingar sem eru að eiga sér stað í kringum okkur. Það þýðir að við munum þurfa að gera ákveðnar breytingar hér. Og talandi um stefnubreytingu og nýjar ákvarðanir þá aðstoðuðum við við flutning á vopnum á fyrstu sólarhringum innrásar og þótt það sé agnarsmátt í stóra samhenginu og allt sem hefur verið gert síðan þá var það gert þegar almenningur í litlum bæjum stóð og varði götur gegn þúsundum rússneskra hermanna nánast með berum höndum. Þetta var ákvörðun sem við höfum — ég held að það sé hægt að taka mögulega eitt dæmi þar sem þetta var gert í Afganistan, annars höfum við aldrei gert þetta. Í þessu felst ákveðin sýn og ákveðin stefna. Við vorum með fjárlagalið á síðustu fjárlögum um varnartengdan stuðning til Úkraínu sem ég held að hafi ekki áður birst í fjárlögum. Við höfum liðkað fyrir framkvæmdum á Keflavíkursvæðinu. Ég vildi bæði að þetta kæmi fram og spyrja hvort þetta endurspegli ekki breytingu á stefnu.