Bráðabirgðaútgáfa.

153. löggjafarþing — 84. fundur,  21. mars 2023.

utanríkis- og alþjóðamál 2022.

852. mál
[15:10]
Horfa

Logi Einarsson (Sf) (andsvar):

Herra forseti. Já, mér fannst það gott í lok ræðunnar að hæstv. ráðherra hafði ekki lesið það út úr minni ræðu að ég væri á móti því að það hefði verið brugðist svona hraustlega við. (Utanrh.: Já.) En þarna erum við fyrst og fremst að grípa til aðgerða á fordæmalausum tímum og að öðru leyti erum við kannski að uppfylla þær skuldbindingar sem við höfum gagnvart núverandi samstarfi. Ég er að kalla bara eftir aðeins opinni hugsun um hvort við ætlum ekki sem lítið eyríki í miðju Norður-Atlantshafi að bregðast við því að heimsmyndin er gjörbreytt eins og hæstv. ráðherra nefndi réttilega. Það er nefnilega ekki svo að þegar þessu stríði lýkur, og vonandi verður það sem fyrst, þá verði bara allt eins og það var. Heimurinn er ekkert samur. Heimurinn er heldur ekki þetta tveggja póla ævintýri sem við upplifðum milli Bandaríkjanna og Rússa. Við erum að upplifa gjörólíka heimsmynd. Ég hefði talið, þrátt fyrir að niðurstaðan að lokum yrði kannski sú að allt væri í stakasta lagi, að það væri alveg einnar messu virði að ráðast í könnun á því hvort það geti verið að það sé ekki. Þannig að ég kalla eftir að okkar færustu sérfræðingar, með stjórnvöldum vissulega, með þinginu, láti fara fram mjög víðtækt hagsmunamat á stöðu okkar í umheiminum. Ég held að það sé bara full þörf á því.