Bráðabirgðaútgáfa.

153. löggjafarþing — 84. fundur,  21. mars 2023.

utanríkis- og alþjóðamál 2022.

852. mál
[16:48]
Horfa

Logi Einarsson (Sf) (andsvar):

Frú forseti. Ég er ekki viss um að þetta svar hafi skýrt þessa hluti, a.m.k. ekki fyrir mér. Það voru vissulega skiptar skoðanir á þinginu í Noregi, en þó voru það ekki nema 11% sem lögðust gegn tillögunni. Það voru 24 sem greiddu atkvæði gegn tillögunni en það voru 184 sem samþykktu að flokkurinn myndi skipta um kúrs. Mér heyrðist hv. þingmaður segja að Vinstri græn og þá væntanlega líka hún, hv. þingmaður, væru enn á þeirri skoðun að við ættum að segja okkur úr NATO. Mér finnst sérkennilegt, svo að ég segi það nú ekki með sterkari orðum, að vilja það en samþykkja samt þjóðaröryggisstefnu sem byggir á þessari grunnstoð um veru í Atlantshafsbandalaginu og grunnstefnu bandalagsins sem þýðir þá væntanlega þátttöku í stríði þegar þannig ber undir. Ég spyr hvort hv. þingmanni finnist það ekki sérkennilegt að vilja byggja á þessari grunnstoð sem einhvers konar neyðarvörn fyrir lítið ríki en telja sig þess umkomna að hafna því að önnur lönd njóti þess sama. Við hv. þingmaður vitum bæði að það þarf samþykki allra aðildarríkjanna, þannig að það skiptir ekki bara máli hvað einstök ríki vilja sem reyna að komast inn heldur skiptir líka máli að þau ríki sem fyrir eru samþykki það að ríkin komi inn. Ég spyr hvort þetta geti ekki bara á nokkuð skýrri íslensku flokkast undir hræsni.