153. löggjafarþing — 84. fundur,  21. mars 2023.

Alþjóðaþingmannasambandið 2022.

687. mál
[18:04]
Horfa

Flm. (Hildur Sverrisdóttir) (S):

Frú forseti. Nú liggur fyrir ársskýrsla Íslandsdeildar Alþjóðaþingmannasambandsins, IPU, og mun ég í stuttu máli gefa þingheimi kynningu á helstu málum í brennidepli innan sambandsins á liðnu ári. Ársskýrsla Íslandsdeildar fyrir árið 2022 gerir störfum þingmannanefndarinnar ítarleg skil auk skipan Íslandsdeildar. Ég mun því aðeins stikla á stóru, en vísa að öðru leyti í skýrsluna sem mælt er fyrir.

Aðild að IPU, sem er erlend skammstöfun fyrir Alþjóðaþingmannasambandið, áttu í lok árs 2022 179 þing en aukaaðild að sambandinu þrettán svæðisbundin þingmannasamtök. Markmið sambandsins er að stuðla að skoðanaskiptum þingmanna frá öllum heimshornum um alþjóðleg málefni, vinna að friði og samstarfi þjóða og treysta í sessi lýðræði og þjóðkjörin fulltrúaþing. Áhersla er lögð á að standa vörð um mannréttindi sem eins af grundvallarþáttum lýðræðis og þingræðis. Þá vinnur IPU að styrkingu þjóðþinga og aðstoðar við þróun lýðræðislegra vinnubragða innan þeirra. Sambandið styður starfsemi Sameinuðu þjóðanna og á margvíslegt samstarf við stofnanir þeirra.

IPU heldur tvö þing á ári og auk þess heldur sambandið alþjóðlegar ráðstefnur og málstofur, oftast um málefni sem eru efst á baugi innan Sameinuðu þjóðanna hverju sinni og þá gjarnan í tengslum við tiltekna ráðstefnu Sameinuðu þjóðanna.

Af þeim fjölmörgu málum sem fjallað var um á vettvangi Alþjóðaþingmannasambandsins á árinu 2022 vil ég leggja áherslu á nokkur atriði, en þau tengjast öll markmiðum sambandsins sem er að vinna að friði og samstarfi meðal þjóða og treysta lýðræði og þjóðkjörin fulltrúaþing í sessi. Á árinu 2022 bar hæst umræða um innrás Rússlands í Úkraínu. Á vorþingi IPU í mars var samþykkt ályktun um friðsamlega lausn stríðsins í Úkraínu, virðingu við alþjóðalög, sáttmála Sameinuðu þjóðanna og landhelgi. Í ályktuninni er fordæmd viðvarandi valdbeitingu Rússa gegn Úkraínu sem brot á sáttmála Sameinuðu þjóðanna, þar á meðal á meginreglunni um fullveldi og landhelgi. Lýst er yfir áhyggjum af því að stríðið í Úkraínu ógni alþjóðaöryggi og valdi efnahagslegri óvissu. Þá er skorað á þingmenn aðildarríkja IPU að greiða fyrir mannúðaraðstoð við þá sem eru á flótta vegna stríðsins og tryggja jafna þátttöku kvenna í friðarviðræðum.

Á haustþingi IPU í október var stríðið í Úkraínu enn í brennidepli og innrás Rússlands í Úkraínu harðlega fordæmd. Þingið samþykkti samhljóða ályktun sem bar yfirskriftina: Fordæming á innrás Rússa í Úkraínu og innlimun landsvæða í kjölfarið, til varnar landhelgis ríkja heims. Í ályktuninni er kallað eftir því að tafarlaust verði bundinn endi á hernám Rússa í landhelgi Úkraínu. Enn fremur er lýst er yfir stuðningi við ályktanir ýmissa alþjóðastofnana til að rannsaka og lögsækja gerendur hugsanlegra stríðsglæpa sem framdir voru í Úkraínu og að stofnaður verði dómstóll með sérstaka lögsögu til að rannsaka þá.

Baráttan gegn loftslagbreytingum var jafnframt áhersluatriði á árinu og gaf IPU út yfirlýsingu á haustþingi um það hvernig virkja megi þjóðþing í baráttunni gegn loftslagsbreytingum. Þar er gerð grein fyrir þeim aðgerðum sem þjóðþing þurfa að ráðast í við innleiðingu Parísarsáttmálans. Lögð er áhersla á að flýta orkuskiptum yfir í hreina orku, að tryggja afkomu jaðarsettra hópa í samfélögum og efla alþjóðlegt samstarf um sameiginlegar lausnir í loftslagsmálum. Forseti IPU sagði í umræðu um yfirlýsinguna að tíminn til að bregðast við loftslagsvánni væri núna og brátt á þrotum. Það væri skylda þingmanna um allan heim að ganga á undan með góðu fordæmi og grípa til nauðsynlegra aðgerða áður en það væri um seinan.

Á árinu voru einnig haldnir fundir þingkvenna þar sem m.a. var rætt um reynslu þjóðþinga við að styðja við heilsu kvenna og ungmenna á tímum Covid-19 og eftirköst faraldursins. Jafnframt fór fram umræða um jafnrétti kynjanna og jafnréttismiðuð þjóðþing sem drifkraft breytinga í átt að friðsælli heimi. Enn fremur var samþykkt yfirlýsing þar sem aðildarríki IPU eru hvött til þess að leggja sig fram um að stuðla að jafnrétti kynjanna í stofnunum og samfélaginu öllu.

Af öðrum stórum málum sem tekin voru til umfjöllunar á fundum IPU á árinu 2022 má nefna netárásir, fæðuóöryggi, hvernig nýta megi upplýsinga- og samskiptatækni til að virkja menntageirann og hvernig megi endurhugsa og skipuleggja nálgun friðarferla með það að markmiði að stuðla að varanlegum friði. Skorað er á þjóðþing að tryggja að friðarferlar séu eins heildrænir og mögulegt er, að allar hliðar máls séu skoðaðar vandlega og raddir kvenna og ungs fólks séu meðtaldar. Enn fremur fór fram umræða um hlutverk þjóðþinga við að samræma ráðstafanir í heilbrigðismálum meðan á heimsfaraldri stæði.

Að lokum ber að nefna mikilvægt starf sambandsins við að efla lýðræði en mörg aðildarþing þess eru ekki lýðræðislega kjörin og í sumum fer ekkert eiginlegt löggjafarstarf fram. Sem dæmi um slíkt starf á árinu 2022 má nefna svæðisbundnar málstofur um heimsmarkmið Sameinuðu þjóðanna. Enn fremur gefur Alþjóðaþingmannasambandið út handbækur og skýrslur fyrir þingmenn til að aðstoða þá við að hafa áhrif í ólíkum málaflokkum. Á árinu gaf IPU m.a. út nýja handbók fyrir þingmenn í samstarfi við Alþjóðaheilbrigðismálastofnunina um það hvernig styrkja megi viðbúnað varðandi heilsuöryggi. Markmið handbókarinnar er að veita þingmönnum og þjóðþingum tól til að efla neyðarviðbúnað og heilbrigðisöryggi.

Frú forseti. Ég vil taka fram að mikil áhersla er lögð á mannréttinda- og jafnréttismál í starfi IPU. Í því samhengi vil ég nefna sérstaka nefnd um mannréttindi þingmanna sem gegnir veigamiklu hlutverki innan IPU og gefur út viðamikla skýrslu fyrir hvert þing. Á grundvelli skýrslunnar samþykkir ráðið fjölmargar ályktanir um mannréttindabrot gegn þingmönnum. Nefndin vinnur mikið starf á milli þinga þar sem hún fer yfir mál þingmanna sem mannréttindi hafa verið brotin á, hvort sem um er að ræða fangelsun, hótanir, barsmíðar, mannshvarf eða dauðsfall.

Þá vil ég nefna þá miklu áherslu sem Alþjóðaþingmannasambandið leggur á að styrkja hlut kvenna í stjórnmálum með ráðstefnum, fundum og útgáfu handbóka og skýrslna svo og með ýmsum formlegum og óformlegum hætti. Jafnframt hefur árleg samantekt samtakanna á stöðu kvenna í þjóðþingum heims vakið athygli og er iðulega vitnað til hennar í umræðum og í fjölmiðlum.

Þá er norrænt samstarf mjög sterkt innan IPU og eru norrænu landsdeildirnar almennt mjög virkar í starfi sambandsins. Norrænu landsdeildirnar halda samráðsfund til undirbúnings fyrir hvert IPU-þing og fór Íslandsdeild með formennsku í hópnum árið 2022.

Það er ljóst að fjölbreytt verkefni bíða IPU á árinu 2023 og ber þar helst að nefna umræðu um áskoranir samtímans fyrir lýðræði, baráttuna gegn loftslagsbreytingum og hvernig stuðla megi að friðsamlegri samfélögum án aðgreiningar.

Eins og áður sagði er gerð grein fyrir því sem fram fór á fundum nefndarinnar í fylgiskjölum skýrslu þeirrar sem hér er mælt fyrir og vísa ég til hennar varðandi frekari upplýsingar um störf nefndarinnar. Ég vil að lokum, þakka Íslandsdeildarmönnum, þeim Sigmundi Davíð Gunnlaugssyni varaformanni og Jóhanni Friðrik Friðrikssyni mjög gott samstarf á þessum góða vettvangi og læt að svo mæltu lokið umfjöllun minni um skýrslu Íslandsdeildar IPU fyrir árið 2022.