Bráðabirgðaútgáfa.

153. löggjafarþing — 84. fundur,  21. mars 2023.

NATO-þingið 2022.

648. mál
[18:40]
Horfa

Bryndís Haraldsdóttir (S) (andsvar):

Virðulegur forseti. Ég þakka hv. þingmanni fyrir ræðuna og verð að segja að það er ánægjulegt að heyra hann tala um varnarbandalagið NATO með þessum hætti eins og mér fannst lýsast í ræðunni, vegna þess að ég hef upplifað í gegnum tíðina að hv. þingmaður væri á móti NATO og aðild Íslands að því. Mig langar að spyrja hv. þingmann, eftir að hann er orðinn mjög virkur þátttakandi í Íslandsdeild NATO og ég sé að hann hefur verið kjörinn til mikilvægra verkefna innan þingsins, í einhverja nefnd varðandi Úkraínustríðið sérstaklega ef ég sé rétt: Hefur hv. þm. Andrés Ingi Jónsson séð ljósið og mikilvægi þess að Ísland sé aðili að varnarbandalagi eins og NATO er?