Bráðabirgðaútgáfa.

153. löggjafarþing — 85. fundur,  22. mars 2023.

Störf þingsins.

[15:28]
Horfa

Inga Sæland (Flf):

Virðulegi forseti. Fyrir rúmum þremur árum voru bæði ég og samflokksmaður minn, hv. þm. Guðmundur Ingi Kristinsson, ítrekað hér uppi í æðsta ræðustól, beinandi orðum okkar á víxl til hæstv. fjármálaráðherra og hæstv. forsætisráðherra. Spurningarnar voru gegnum gangandi þessar: Hvað á að gera til þess að tryggja heimili landsins ef það skyldi nú koma verðbólguskot? Í rauninni var bara hlegið að okkur svona undir niðri: Það þarf ekki að hafa áhyggjur. Engar áhyggjur. Hvers vegna að hafa áhyggjur af þessu? Seðlabankastjóri: Engar áhyggjur að hafa.

Við sögðum og ég segi í greinaskrifum og hvaðeina: Ef það eru engar áhyggjur af þessu af hverju má ekki setja belti og axlabönd á heimilin? Hvað er að því að tryggja það að stýrivextir verði á einhverjum einum góðum stað án þess að þeir rjúki upp úr öllu valdi og tryggja að vextir á heimilin verði ekki hækkaðir upp úr öllu valdi?

Nei, staðreyndin er sú að þegar við byrjuðum að ræða þessi mál var verðbólga hér 2,1%. Það er í raun sárgrætilegt að hugsa sér að þessi ríkisstjórn skuli vera búin að vera saman í ríflega fimm ár og á þessum tíma hefur fátækt barna vaxið um 44%. Er þessi ríkisstjórn að gera eitthvað til að koma til móts við fátækar fjölskyldur í landinu, fjölskyldur sem eru að sligast undan því athafnaleysi sem ríkir hjá ríkisstjórninni? Nei, ekki nokkurn skapaðan hlut. Hins vegar kallar ágætur seðlabankastjóri undir rós á aðstoð stjórnvalda, biður um aðstoð til að þurfa ekki að standa einn með þennan kaleik, að hækka hér allt upp úr öllu rjáfri með þeim ömurlegu afleiðingum sem við erum öll (Forseti hringir.) að fara að horfast í augu við og ekki síst þeir sem minnst mega sín í samfélaginu.