Bráðabirgðaútgáfa.

153. löggjafarþing — 85. fundur,  22. mars 2023.

hungursneyðin í Úkraínu.

581. mál
[17:50]
Horfa

Bjarni Jónsson (Vg):

Virðulegi forseti. Fyrir 90 árum síðan geisaði hungursneyð af mannavöldum í Úkraínu, liður í margháttuðum aðgerðum einræðisstjórnar Stalíns, leiðtoga Sovétríkjanna, til að brjóta niður og til undirgefni úkraínsku þjóðarinnar. Aðgerðirnar beindust gegn ríkjandi samfélagsgerð, menningu, þjóðarvitund og afkomu stórs hluta Úkraínumanna. Tækifæri til að sjá sér farborða voru bæld niður og fólk sem vildi leita annað eftir björgum var hneppt í átthagafjötra.

Með úkraínsku þjóðinni bærðist draumur um sjálfstæði. Á árunum 1917–1921 varð Úkraína í stuttan tíma sjálfstætt ríki og barðist fyrir því að halda sjálfstæði sínu áður en hún var hernumin og innlimuð í Sovétríkin. Á þessum sömu árum vorum við Íslendingar að taka stærri skref í áttina að fullu sjálfstæði sem þjóð. Á fundi sem ég sat með Selenskí, forseta Úkraínu, fyrir mánuði síðan lagði hann einmitt áherslu á mikilvægi fullveldisins; að þau héldu landi sínu, að þau gætu búið í lýðræðissamfélagi og tekið sjálf ákvarðanir um sín mál og framtíð. Fullveldið er þeirra fjöregg líkt og það er okkar. Við sem hér búum eigum auðvelt með að finna samkennd og bera virðingu fyrir þeim gildum sem íbúar Úkraínu berjast fyrir, þeirri framtíð sem þau dreymir um, sjálfstæð, stolt á meðal lýðræðisþjóða, þjóða sem deila framtíðarsýn.

Selenskí forseti sagði viðurkenningu á Holodomor sem þjóðarmorði hafa mikla þýðingu í sögulegu samhengi því að nú, 90 árum síðar, séu einræðisöflin í Rússlandi aftur að fremja hryllilega glæpi í Úkraínu. Hvort sem sé efnahagsþvinganir eða viðurkenningu þjóðþinga á Holodomor sem þjóðarmorði, hjálpi það fátæku fólki að lifa af, Úkraínumönnum að berjast fyrir landi sínu og framtíð, að finna slíkan stuðning og samkennd.

Með samþykkt þeirrar tillögu sem hér liggur fyrir viðurkennir Alþingi Íslendinga þá hungursneyð sem ógnarstjórn Stalíns olli Úkraínu á árunum 1932–1933, þekkt sem Holodomor, sem hópmorð. Þingmenn fordæma harðlega þessar gjörðir sem leiddu til dauða milljóna Úkraínumanna og skora á öll lönd og samtök sem enn hafa ekki gert það, að fylgja í kjölfarið og viðurkenna þessa hræðilegu atburði sem hópmorð.

Þegar þess var minnst að 90 ár eru frá þjóðarmorðunum sem framin voru í Úkraínu árið 1932–1933 var skorað á alþjóðasamfélagið að fordæma glæpsamlegt athæfi alræðisstjórnar Sovétríkjanna undir Stalín sem miðaði að því að skipuleggja Holodomor sem hafði það að markmiði að brjóta niður samfélagsgerð úkraínsku þjóðarinnar, að vega að og bæla niður aldagamlar hefðir þeirra, andlega menningu og þjóðarvitund, aðför sem aukinheldur hafði þær afleiðingar að milljónir manna létu lífið. Að votta þeim sem urðu fórnarlömb Holodomor, skipulagðri af stjórn Stalín, samúðarkveðjur, að undirstrika nauðsyn þess að vekja almenning til vitundar um voðaverkin og draga lærdóm af þessum hörmulegu atburðum til að afstýra sambærilegum hörmungum í framtíðinni. Að skora á ríkisstjórnir að opna skjalasöfn sín um atburðina 1932–1933 til að leiða í ljós allan sannleika þessa harmleiks. Að viðurkenna Holodomor 1932–1933 í Úkraínu sem þjóðarmorð á úkraínsku fólki og skora á alþjóðasamfélagið að viðurkenna Holodomor 1932–1933 í Úkraínu sem þjóðarmorð á úkraínsku fólki. Með samþykkt þessarar tillögu verður Alþingi Íslendinga við því kalli ásamt því að vera fleiri þjóðþingum hvatning til að gera slíkt hið sama.