Bráðabirgðaútgáfa.

153. löggjafarþing — 85. fundur,  22. mars 2023.

aukið aðgengi að hjálpartækjum fyrir blinda, sjónskerta og einstaklinga með samþætta sjón- og heyrnarskerðingu.

823. mál
[18:07]
Horfa

Inga Sæland (Flf):

Frú forseti. Það er ánægjulegt þegar hlutirnir okkar ná að blómstra í sameiningu. Þetta mál, sérstaka mál, er mér einstaklega hjartfólgið og þess vegna kem ég hér upp til þess að þakka velferðarnefnd fyrir að taka utan um málið og koma með það hingað inn. Ég veit að það mun fá framgang og mun ná algerlega sínum tilætluðu áhrifum.

Ég veit ekki hversu mikið er vitað um frumvarpið sem slíkt. Í fyrsta lagi var þetta einn af þessum litlu sigrum Flokks fólksins. Þetta var samningamálið okkar núna fyrir jól og utan um það tekið þannig að allir tóku saman höndum, hvar í flokki sem þeir voru, og ákváðu að koma þessu inn, enda sýnilegt að þetta er eitt af þessum fallegu málum sem kosta litla fjármuni en mun hjálpa ofboðslega mörgum hlutfallslega.

Við erum að tala um hjálpartæki, það er alger bylting. Ég get sagt frá sjálfri mér í þessu sambandi. Sjónstöð Íslands, þjónustumiðstöð fyrir sjónskerta og blinda, stækkaði öll mín námsgögn þegar ég gat loksins farið að ganga menntaveginn. Ég hafði reynt það oft og mörgum sinnum en alltaf þurft frá að hverfa út af því að sjónskerðing mín hamlaði mér mjög mikið. En í Háskóla Íslands var sérstaklega vel tekið utan um mig. Sjónstöð Íslands varð þess valdandi með því að stækka fyrir mig námsgögnin að ég gat lesið, þannig að ég gat lesið lögin sem ég vildi læra og lauk þaðan BA-prófi í lögfræði. Ég segi að án Sjónstöðvarinnar og þeirrar aðstoðar sem ég naut þar hefði það aldrei orðið.

Þessi hjálpartæki sem nú um ræðir eru alger bylting hvað lýtur að því að mjög sjónskertir og jafnvel blindir einstaklingar geta nú með einföldu móti látið lesa fyrir sig og tekið póstinn sinn og sett hann í græjurnar sem les hann fyrir mann. Þetta er bylting. Þetta er bara alger bylting. Annað er ofboðslega flottur stækkunarbúnaður sem er þá í formi augna, bara gleraugna, hvernig sem það lítur út. Ég hef ekki enn þá prufað það því að ég er vön að vaða bara áfram svona frá því að ég man eftir mér og keyra þá bara frekar á og steypast fram af þröskuldunum.

En þetta er bylting og þetta er fallegur dagur í mínum huga. Þetta er svona svipað eins og með hjálpartækin sem felast í leiðsöguhundum sem gjörsamlega bylta lífi blindra einstaklinga, einstaklinga sem eru alveg blindir. Þeir fá augu, þeir fá augu í hundinum sem klikkar gjörsamlega aldrei á því að koma í veg fyrir að þau fari sér að voða vegna sjónleysis. Þannig að ég hef ekki mikið annað að segja að það er ekki oft sem maður kemur hingað inn og upp í þetta fallega ræðupúlt, æðsta ræðustól landsins, öðruvísi en að vera að skammast og kalla eftir í rauninni betri aðbúnaði fyrir fólkið sem á í vök að verjast úti í samfélaginu, fyrir fátækt fólk og bágstadda. Og okkur í Flokki fólksins hefur aldrei fundist nóg að gert sem það er heldur ekki, enda tel ég það algjörlega hafið yfir allan vafa að Flokkur fólksins er hinn eini raunverulegi velferðarflokkur á Alþingi Íslendinga í dag.

Þess vegna þakka ég hjartanlega fyrir. Ég þakka hjartanlega fyrir að við getum sýnt að við getum unnið saman og gert það fallega og ég trúi því að við getum gert svo miklu, miklu oftar og miklu meira og betur en við höfum raunverulega gert, ef við hættum að vera við og þið, ef við hættum að vera í stríði hvert við annað. Þannig að ég segi: Sameinuð erum við ósigrandi og við munum sýna það þá fyrir fólkið okkar, fyrir kjósendur, fyrir þjóðina okkar að við erum þess verðug að hafa hlotið umboð til að vinna störfin hér á hinu háa Alþingi. Og enn og aftur, frú forseti, ég segi bara: Hjartans þakkir fyrir þetta dásamlega mál.