Bráðabirgðaútgáfa.

153. löggjafarþing — 86. fundur,  23. mars 2023.

aðgerðir ríkisstjórnar í efnahagsmálum.

[10:38]
Horfa

Logi Einarsson (Sf):

Frú forseti. Hefðu ekki aukið útgjaldastigið — en hins vegar hefði hæstv. ráðherra verið í lófa lagið að samþykkja þá bara tekjuaðgerðir okkar vegna þess að þær voru upp á 17 milljarða kr., 0,5% af vergri landsframleiðslu. Það er ótrúlegt að hæstv. fjármálaráðherra haldi því fram að slíkt skipti ekki máli þegar kemur að ríkisfjármálum. Hér erum við að tala um þá hópa sem hafa í rauninni haft það allra best og haft það mjög gott í gegnum þetta tímabil.

Núna byrjar hæstv. ráðherra aftur að tala um þessa björtu tíð sem eru í vændum. Hann hefur hins vegar nýlega sagt að fólk sé hætt að hafa trú á því að hægt sé að ná verðbólgunni niður. Það hlýtur a.m.k. að vera hans hlutverk að sjá til þess að fólk fái aftur trú á því. Það er ekki hægt að skilja vandann eftir bara hjá Seðlabankanum. Þannig að ég ítreka spurninguna: Kemur til greina í fjármálaáætlun að breyta um takt og sækja tekjur til allra best stöddu hópanna í samfélaginu?