Bráðabirgðaútgáfa.

153. löggjafarþing — 86. fundur,  23. mars 2023.

þrepaskiptur skyldusparnaður.

[10:55]
Horfa

Ásthildur Lóa Þórsdóttir (Flf):

Virðulegi forseti. Seðlabankinn segir að vaxtahækkanir séu eina tækið sem hann hafi til að berjast við verðbólguna. Ég er reyndar algjörlega ósammála því en ræðutíminn er stuttur svo að ég fer ekki nánar út í það hér. Hann hefur einnig kvartað sáran yfir því að hann standi einn í baráttunni við verðbólguna og þó að ég mótmæli harðlega þessu vaxtabrjálæði Seðlabankans, sem enn sér ekki fyrir endann á, er það rétt að ríkisstjórnin hefur staðið ósköp aðgerðalaus á hliðarlínunni án þess að grípa til markvissra aðgerða. Nú er kominn tími fyrir nýjar lausnir. Mig langar því að stinga upp á því við hæstv. fjármálaráðherra að ríkisstjórnin setji lög um að taka tímabundið upp þrepaskiptan skyldusparnað til að slá á einkaneyslu. Þessi skyldusparnaður ætti að vera þrepaskiptur sem myndi þýða að þeir sem mest hafa og viðhalda þenslunni myndu spara mest og þar með myndi lausafé í umferð minnka verulega og slá á verðbólguna. Með þessu væri fé heimilanna ekki beint til bankanna, engum til góðs, heldur ættu heimilin það og því væri hægt að veita út í hagkerfið þegar þörf væri á innspýtingu. Áhrifin væru þau að Seðlabankinn þyrfti ekki að beita vaxtatækinu af jafn mikilli hörku og hann gerir nú til að bregðast við aukinni verðbólgu. Hann gæti jafnvel hugsanlega sleppt vaxtahækkunum því skyldusparnaðurinn myndi minnka ráðstöfunarfé heimilanna eins og vaxtahækkunum er ætlað að gera. Þetta eru bara nokkrir af þeim kostum sem myndu fylgja þessari aðgerð. Húsnæðiskostnaður heimilanna myndi haldast nokkuð stöðugur hvort sem um væri að ræða lán eða leigu því það er staðreynd að auk þess að hækka afborganir lána skila vaxtahækkanir sér beint inn í leiguverð og bitna helst á þeim sem minnst hafa, minnst eiga og mest skulda. Með þrepaskiptum skyldusparnaði væri hægt að hlífa lægstu tekjutíundunum að miklu eða öllu leyti á meðan þunginn af þessum kostnaði myndi færast þangað sem hann á heima, til þeirra sem hafa mest á milli handanna, mest skulda og valda þar með meiri þenslu en hinir sem rétt eiga í sig og á.

Ég vil því spyrja hæstv. fjármálaráðherra: Má búast við einhverjum raunhæfum aðgerðum frá ríkisstjórninni til að verja heimilin? Kemur til greina að hætta að nota vexti á húsnæðiskostnaði sem eina tækið gegn verðbólgunni, (Forseti hringir.) t.d. með því að beita skyldusparnaði með þeim hætti sem ég hef nú gert grein fyrir?