Bráðabirgðaútgáfa.

153. löggjafarþing — 86. fundur,  23. mars 2023.

almannatryggingar og félagsleg aðstoð.

533. mál
[11:28]
Horfa

Viðar Eggertsson (Sf) (um atkvæðagreiðslu):

Herra forseti. Ég tek undir með öðrum hér. Það er vissulega stórt skref sem verið er að stíga með því að fara í endurskoðun á almannatryggingum. Það er ýmislegt sem þar er ógert og ég fagna orðum hv. þm. Jódísar Skúladóttur, flutningsmanns málsins, um það að hér sé í raun og veru bara verið að hefja störf í miklu lengra ferli. Því vil ég gera athugasemdir — vegna tímans get ég bara tekið fyrir eina sem kemur fram í áliti minni hlutans um tekjur barna en þar segir:

„Börn undir 16 ára aldri eru ekki sjálfstæðir skattaðilar séu þau á framfæri foreldra sinna og tekjur þeirra, aðrar en atvinnutekjur, skattlagðar sem tekjur foreldris.“

Þetta ákvæði um að tekjur barna skuli hafa áhrif á lífeyri foreldra þeirra er eiginlega algerlega út í hött og það væri ánægjulegt ef hægt væri að breyta þessu í meðförum þingsins.