Bráðabirgðaútgáfa.

153. löggjafarþing — 86. fundur,  23. mars 2023.

aukið aðgengi að hjálpartækjum fyrir blinda, sjónskerta og einstaklinga með samþætta sjón- og heyrnarskerðingu.

823. mál
[12:11]
Horfa

Inga Sæland (Flf) (um atkvæðagreiðslu):

Herra forseti. Ég náttúrlega ruddist upp áðan og lenti í ræðu þegar ég var í rauninni í stórkostlegum misskilningi um að ég væri að gera grein fyrir atkvæðagreiðslu minni. Það er náttúrlega aldrei of oft kveðin góð vísa. Og aftur fyrir þá sem héldu að þeir væru lausir við atkvæðagreiðslu þá langar mig bara að ítreka þakkir fyrir það hvernig hefur verið tekið utan um þetta mál og segja að það skiptir sköpum fyrir okkur sjónskerta og blinda einstaklinga.

Um leið þá langar mig að minna á að við værum líka afskaplega þakklát ef við tækjum þetta stutta mál til meðferðar einnig þar sem við óskum eftir því að nafni þessarar frábæru miðstöðvar verði breytt, sem heitir Þjónustu- og þekkingarmiðstöð fyrir sjónskerta, blinda og daufa einstaklinga með samþætta heyrnar- og einhverjar skerðingar — fyrirgefið, ég man ekki nafnið en þau biðja bara einfaldlega um að fá að heita Sjónstöðin. Mér finnst ástæða til að við áttum okkur á því að þetta er bara einföld og snyrtileg breyting á alveg ótrúlega erfiðu orði sem nánast enginn man frá degi til dags nema til að fletta því upp til þess að minna sig á hvað raunverulega þessi góða þjónustumiðstöð heitir: Sjónstöðin.