Bráðabirgðaútgáfa.

153. löggjafarþing — 86. fundur,  23. mars 2023.

aðgerðaáætlun um þjónustu við eldra fólk fyrir árin 2024--2028.

860. mál
[14:28]
Horfa

Inga Sæland (Flf):

Virðulegur forseti. Það hefur ekki farið fram hjá neinum að það hefur verið sérstakt hjartans mál Flokks fólksins að berjast fyrir bættum kjörum, aðbúnaði og tilveru eldra fólks. Ég hef hér í þessum æðsta ræðustóli landsins frá því árið 2019 kallað eftir hagsmunafulltrúa fyrir eldra fólk og það er ánægjulegt að sjá að nú skuli vera á teikniborðinu samþætting og virkilegur vilji til þess að taka utan um þennan þjóðfélagshóp.

Mig langar að lesa hérna upp það sem ég hefði viljað sagt hafa til viðbótar. Alþingi samþykkti t.d. þann 13. júní 2021 þingsályktunartillögu um hagsmunafulltrúa eldra fólks. Samkvæmt tillögunni átti ráðherra að skipa starfshóp og átti sá starfshópur að skila ráðherra drögum að frumvarpi um hagsmunafulltrúa eldra fólks eigi síðar en í apríl 2022. Við skulum taka eftir: Eigi síðar en í apríl 2022, fyrir tæpu ári síðan.

Einhverjar tafir hafa því miður orsakað það að frumvarpið hefur ekki enn litið dagsins ljós. Starfshópurinn hefur verið skipaður en það tókst ekki fyrr en eftir að upphaflegur frestur var þegar liðinn, þ.e. um miðjan apríl 2022. Samkvæmt upplýsingum úr skýrslu forsætisráðherra um framfylgd ályktana var stefnt að því að starfshópurinn myndi skila ráðherra frumvarpsdrögum nú í janúar sem leið.

Áfram, með leyfi forseta, þingsályktunin, eins og hún lá fyrir, um hagsmunafulltrúa eldra fólks:

„Alþingi ályktar að fela félags- og barnamálaráðherra að stofna starfshóp hagsmunaaðila auk starfsfólks ráðuneytisins sem semji frumvarp til laga um embætti hagsmunafulltrúa eldra fólks. Starfshópurinn meti m.a. hvar slíku embætti væri best fyrir komið og hvert umfang þess skuli vera. Starfshópurinn skili ráðherra drögum að frumvarpi fyrir 1. apríl 2022.“

Þetta var sem sagt samþykkt á Alþingi þann 13. júní 2021 og var eitt af þessum svokölluðu samningsmálum Flokks fólksins sem hefur, eins og ég sagði í upphafi ræðu minnar, barist af öllu hjarta og með öllum sínum vilja fyrir auknum hagsmunum og betri og bættri heilsu og lífi eldra fólks þannig að það verði sannarlega eins og í þeim ramma sem hæstv. ráðherra er að koma hér með um að það sé ekki bara betra heldur gott að eldast á Íslandi.

Hér eru upplýsingar úr skýrslunni sem um er rætt og ég veit að framkvæmd er hafin og auðvitað vill maður alltaf að hlutirnir gangi hraðar fyrir sig. Einnig fengum við í heimsókn Ólaf Þór Gunnarsson, fyrrverandi þingmann, sem hefur í rauninni legið yfir því að aðstoða við að koma á laggirnar þessari umgjörð og skýrri sýn á það hvernig við ætlum öll að fá að eldast á Íslandi með reisn og eiga áhyggjulaust ævikvöld. Um það snýst þetta allt saman. Þetta snýst um það að efri árin okkar eiga að vera gæðaár. Ég held — ég held ekkert, ég er sannfærð um að með þessu frumvarpi ráðherra og þeim góða vilja sem hér er til þess að taka utan um eldra fólk og virkilega tryggja það, í þessum fimm liðum sem hæstv. ráðherra kom með inn og annað slíkt, og koma í veg fyrir félagslega einangrun, reyna að efla það, reyna að koma af stað öryggi í búsetu, gefa því kost á að vera lengur heima ef það treystir sér til og allt hvað eina — það er ekkert nema gott um þetta að segja.

En hvergi er þar að finna það sem við í Flokki fólksins teljum mjög nauðsynlegt og það er að fullorðið fólk sem býr heima og treystir sér til þess skuli ekki geta leitað til einstaklings sem hefur vald, vilja og getu til að uppfræða það um hver réttur þess er, þannig að eldra fólk geti haft samband og sagt: Hver er réttur minn? Nú er ég að glíma við almannatryggingar og ég bara algerlega veit ekkert hvort ég er að koma eða fara. Ég skil þetta ekki. Mér finnst erfitt að fara þangað, mér finnst ég ekki fá í rauninni brautargengi fyrir mín mál. Hver er réttur minn gagnvart erfðalögum? Hver er réttur minn gagnvart hinu og þessu? Hver er tilveruréttur minn? Það er þess vegna sem við í Flokki fólksins höfum talið það ekki bara mikilvægt heldur nauðsynlegt að koma af stað og hleypa af stokkunum því sem við viljum kalla hagsmunafulltrúa aldraðra. Við gætum haft það í takt við umboðsmann eða það hefði geta heitið hvað eina annað sem er. Það er aukaatriði hvað hann heitir. Aðalatriðið er að hann er eingöngu til þess að koma til móts við og aðstoða eldra fólk.

Ég vil halda því fram fyrst þessi vinna er komin þetta vel á veg og maður er í rauninni fullur af bjartsýni og brosi gagnvart því að auðvitað verði hún í lokin virkilega til hagsbóta, að við tökum þetta algerlega heildstætt, að við tökum utan um það alla leið og séum ekki að skilja neitt út undan. Það líður engum vel þótt hann búi heima ef hann veit aldrei hver réttur hans er í samfélaginu. Ég verð að viðurkenna að t.d. kerfi almannatrygginga er það flókið að það er hæpið að þeir sem vinna við það skilji það raunverulega sjálfir, enda eru ítrekuð mistök að koma fram í alls konar útreikningum og útborgunum og öðru slíku til einstaklinga sem þurfa að reiða sig á þetta kerfi.

Svo er það líka, eins og ég benti á, að það skiptir öllu máli hvernig stjórnsýslan er að koma fram við þig þegar þú skilur það ekki. Ég er ein af þeim heppnu fullorðnum konum sem á enn þá báða mína foreldra á lífi og það er fjársjóður sem ekki allir geta talað um. En ég get gert það og þar af leiðandi hef ég orðið vitni að því hversu mikið óöryggi fylgir því að vera kominn á tíræðisaldur og vera kominn á níræðisaldur og vita ekki nákvæmlega í þessu tæknivædda samfélagi okkar — þar sem þau eru líka jaðarsett, þau eru algerlega jaðarsett hvað lýtur að Heilsuveru, heimabönkum og öllu þessu. Móðir mín býr ein heima, hún býr heima og sér um sig sjálf, rosalega dugleg og flott, en það breytir ekki þeirri staðreynd að hún myndi ekki geta gert neitt af þessu. Hún getur ekki farið inn á Heilsuveru, hún getur ekki farið inn í heimabankann. Þessir einstaklingar þurfa að fá hjálp. Móðir mín og margir aðrir eru það heppnir að eiga aðstandendur sem þá stíga inn og hjálpa þeim. En þetta er fólk sem hefur verið sjálfstætt, sem hefur staðið keikt uppi og vill bjarga sér sjálft og finnst óþægilegt að þurfa að hringja í vini, börn eða barnabörn, frændur eða frænkur til að segja: Geturðu hjálpað mér? Ég kann ekki á þessa Heilsuveru.is og allt þetta .is, Íslykil, auðkenni og allt þetta. Þetta fólk getur ekki gert þetta. Ég vil því skora á hæstv. ráðherra, af því að hann er nú kominn í þessa vegferð og við munum öll styðja hann í því, að við tökum þetta heildstætt. Við gætum gert það t.d. með hagsmunafulltrúanum. Við getum líka komið með námskeið. Við getum gert svo margt til að auðvelda eldra fólki að lifa áfram með okkur þó svo að það sé stafrænt og þó svo að við séum svona ofboðslega tæknivædd eins og raun ber vitni. En við verðum líka að líta á einstaklinginn eins og hann er. Við getum aldrei gert ráð fyrir því að bara af því að við erum klár á tölvuna og við höfum rafræn skilríki og allt þetta og við getum farið inn á Heilsuveru og allt sem heitir .is að þá séu það allir. Það eru þarna þúsundir einstaklinga sem hafa hreinlega verið jaðarsettir í samfélaginu á meðan þessi tækniþróun hefur farið algjörlega á ljóshraða í gegnum samfélagið. Þannig að ég segi: Ef við virkilega viljum tryggja gæðaárin og gleði í samfélaginu alveg þar til við förum í sumarlandið á að gefa okkur kost á því allan tímann að fá að fylgjast með og taka þátt og vera með, vera stolt, vera glöð og líða vel.

Ég heyrði það áðan í andsvari við mig að hæstv. ráðherra hefði styrkt úr sínu skúffufé þetta góða starf sem er í Árbænum hvað lýtur að leikfimi og samneyti eldra fólks þar sem það kemur saman og hoppar og skoppar. Ég skora náttúrlega á ráðherra að fara að elta mig í ræktina svo að við verðum í betra formi og getur fylgt þessum góða hópi eftir. En ég þakka hæstv. ráðherra fyrir að hafa tekið utan um það og ég skora á hann og mun standa með honum og hæstv. heilbrigðisráðherra í hverju sem er til að bæta hag og líf eldra fólks og gera efri árin að gæðaárum.