Bráðabirgðaútgáfa.

153. löggjafarþing — 86. fundur,  23. mars 2023.

Land og skógur.

858. mál
[14:48]
Horfa

matvælaráðherra (Svandís Svavarsdóttir) (Vg):

Forseti. Ég mæli hér fyrir frumvarpi til laga um Land og skóg á þskj. 1332, mál nr. 858. Í frumvarpinu er mælt fyrir um sameiningu Landgræðslunnar og Skógræktarinnar með þeim hætti að sett verði á fót ný stofnun sem sinna skuli verkefnum á sviði landgræðslu og skógræktar undir heitinu Land og skógur. Frumvarpið er samið í matvælaráðuneytinu.

Í maí 2022 skipaði ég starfshóp sem var falið að greina rekstur Landgræðslunnar og Skógræktarinnar, eignaumsýslu, samlegð faglegra málefna og vinna áhættugreiningu vegna mögulegrar sameiningar. Niðurstaða starfshópsins var sú að fagleg og rekstrarleg rök væru fyrir sameiningu stofnananna og að með góðum undirbúningi mætti tryggja að slík sameining skilaði í heildina meiri ávinningi en ef áfram yrðu tvær stofnanir. Tækifæri væru til staðar og horfa mætti til að ná fram aukinni skilvirkni í málaflokknum.

Landgræðslan og Skógræktin eru stofnanir sem eiga sér langa sögu og hafa verkefni þeirra frá upphafi tengst. Mikill samhljómur er með hlutverkum stofnananna eins og þau eru skilgreind í lögum um landgræðslu, nr. 155/2018, og lögum um skóga og skógrækt, nr. 33/2019, og því er hlutverk nýrrar stofnunar mótað eftir núgildandi ákvæðum. Þá munu framangreind lög gilda áfram en tilvísunum til Landgræðslunnar og Skógræktarinnar verður breytt og vísað verður til nýrrar stofnunar verði frumvarpið að lögum.

Árið 2022 var gefin út fyrsta sameiginlega stefna stjórnvalda um landgræðslu og skógrækt, Land og líf, sem felur í sér framtíðarsýn, gildi og áherslur í málaflokknum auk aðgerðaáætlunar í landgræðslu og skógrækt 2022–2026, þar sem áhersla er m.a. lögð á endurheimt vistkerfa og á röskuðu landi, endurheimt votlendis og náttúruskóga og skógrækt. Báðar stofnanirnar hafa stórt og vaxandi hlutverk á sviði umhverfis- og loftslagsmála og hafa verið í samstarfi á fjölmörgum sviðum. Sameining stofnananna er til þess fallin að efla þjónustu og ráðgjöf til bænda og annarra viðskiptavina á málefnasviðinu auk þess sem heildstæðari nálgun varðandi nýtingu lands getur flýtt framgangi fjölmargra verkefna, m.a. í þágu loftslagsmála. Þá eru tækifæri til að hagnýta gögn og rekstur landupplýsinga sem stuðlar að öflugra rannsóknarstarfi.

Hvað varðar starfsmannamál í breytingaferlinu er sérstök áhersla lögð á að tryggja mannauð í málaflokknum og að núverandi þekking nýtist áfram sem best. Allir starfsmenn halda því sínu starfi eða sambærilegu og réttindi og skyldur færast með starfsfólki til nýrrar stofnunar verði frumvarpið að lögum. Aðalskrifstofa nýrrar stofnunar getur verið á hvaða starfsstöð sem er, en ekki er þó gert ráð fyrir að forstöðumaður hafi aðsetur á höfuðborgarsvæðinu. Í ferlinu var ákveðið að velja nýtt nafn á stofnunina og komu ýmsar hugmyndir fram hvað það varðar. Land og skógur þykir hins vegar lýsandi fyrir starfsemi stofnunarinnar og hefur einnig skírskotun til verkefna og heita núverandi stofnana og því var ákveðið að fara fram með það nafn í framlögðu frumvarpi.

Að lokum er gert ráð fyrir að einhver tilfallandi tímabundinn kostnaður muni falla til fyrstu eitt til tvö árin við sameininguna ef miðað er við fyrri reynslu ríkisins af sameiningu stofnana. Til lengri tíma má þó gera ráð fyrir að sameiningin muni leiða til samlegðaráhrifa sem geti leitt til aukinnar skilvirkni í rekstrinum og sá sparnaður sem kann að hljótast af sameiningunni verður þá nýttur í verkefni nýrrar stofnunar.

Oftar en einu sinni hefur verið skoðað hvort sameina eigi þessar tvær rótgrónu stofnanir án þess að það hafi gengið eftir. Með góðum undirbúningi og áherslu á mannauð verður tryggt að ávinningurinn verði meiri en ef stofnanirnar verða áfram tvær.

Virðulegi forseti. Ég vil að öðru leyti vísa til greinargerðar þeirrar er fylgir með frumvarpinu en þar er ítarlega fjallað um og gerð grein fyrir efni þess. Að lokinni þessari umræðu legg ég til að frumvarpinu verði vísað til 2. umr. og hv. umhverfis- og samgöngunefndar.