Bráðabirgðaútgáfa.

153. löggjafarþing — 86. fundur,  23. mars 2023.

stjórn fiskveiða.

861. mál
[15:40]
Horfa

Haraldur Benediktsson (S) (andsvar):

Virðulegur forseti. Ég veit að hæstv. ráðherra kemur ekki á óvart að þingmaður sem kemur úr því kjördæmi sem ég kem sé kannski skeptískur á þessar breytingar. Ég vil þess vegna halda því til haga og beina því til nefndarinnar að ræða kannski aðrar aðgerðir en bara að breyta aftur í gamla fyrirkomulagið með þeim hætti sem hér er lagt til. Það er kannski önnur umræða, en mér finnst hún blandast inn í þetta, að skoða líka verðmæti þess afla sem þó hefur fallið til þessara svæða og bera það saman við það hver aðgangur þeirra svæða sem um er rætt er að auðlindinni og ekki síður að horfa til þess og til útgerðarinnar í heild með það hvað landshlutar eru að bera úr býtum með því að sækja sjóinn. Ég held að það geti skipt máli þegar við ræðum afturhvarf með þeim hætti sem birtist í þessu frumvarpi.