Bráðabirgðaútgáfa.

153. löggjafarþing — 86. fundur,  23. mars 2023.

stjórn fiskveiða.

861. mál
[16:13]
Horfa

Inga Sæland (Flf):

Virðulegi forseti. Strandveiðar, félagslegt kerfi. Undir eru litlar brothættar byggðir allt í kringum landið, brothættar byggðir eins og ég myndi telja litla sveitarfélagið sem ég kem frá, þar sem ég fæddist og ólst upp. Þótt ég sé búin að búa allmörg ár í höfuðborginni þá breytir það ekki þeirri staðreynd að það er alltaf jafn dapurt að heimsækja litla fallega fjörðinn minn, Ólafsfjörð, og sjá nánast þá gjöreyðingu sem þar hefur átt sér stað. Frá því að ég varð til var Ólafsfjörður kaupstaður. Til þess að bær hlyti kaupstaðarréttindi þurftu að búa þar a.m.k. 1.000 manns. Þegar ég flyt að heiman þá bjuggu sennilega ríflega 1.300 manns á Ólafsfirði. Nú telja þeir ekki 800. Þegar ég bjó heima voru frystitogarar, ísfisktogarar, tugir smábáta, það voru netabátar og alls konar bátar. Höfnin var algjörlega smekkfull af bátum og þar var mikið líf, þar var mikið fjör. Það var unnið í tugum sjóhúsa, ekki bara stórum sjóhúsum heldur voru einyrkjar, smábátasjómenn að salta og vinna í sínum litlu prívat sjóhúsum. Það voru tvö risastór frystihús þar sem nánast allar konurnar í bæjarfélaginu höfðu öruggt aðgengi að vinnu. Bæði var gaman að vera í frystihúsinu og líka náttúrlega félagslegt og yndislegt, við vorum að skapa verðmæti. Ég átta mig ekki alveg á því hvernig er hægt, virðulegi forseti, eins og sýnt var í Verbúðinni, sællar minningar, sem hlaut verðskulduð verðlaun núna á nýgenginni Eddu, að fara svona með landsmenn. Það er sárara en tárum taki. Það er viðleitni til að sameina sveitarfélög í þeirri góðu trú að þá gangi hlutirnir betur og sé auðveldara og ódýrara rekstrarfyrirkomulag og þá hljóti að ganga betur, en hvað gerist í kjölfarið? Jú, nákvæmlega það sama og við horfðum upp á í Verbúðinni þegar Guðbjörgin var tekin frá Ísafirði.

Það er verið að leggja upp með og segja: Vitið bara hvað, ef þið sameinist og þetta er svona og hinsegin þá verður þetta kyrrt í bæjarfélaginu. Kvótinn verður áfram í bæjarfélaginu. Störfin verða tryggð í bæjarfélaginu. En hver er staðan í dag? Jú, Rammi er að 70% hluta búinn að sameinast Ísfélaginu í Vestmannaeyjum. Hvaða áhrif mun það hafa á Fjallabyggð í heild sinni? Hvaða áhrif myndi það hafa ef Fjallabyggð í heild sinni fengi að byggja á þeim byggðakvóta sem er verið að tala um að sé sanngjarnt að úthluta til smærri sjávarplássa til þess einmitt að reyna að koma til móts við þau áföll sem hafa hlotist af því hvernig sjávarauðlindin okkar hefur safnast og þjappast á fárra hendur? Ég get engan veginn skilið það, mér er algerlega fyrirmunað að skilja hvernig það vefst fyrir ráðherra sjávarútvegsmála að tryggja 48 daga til veiða strandveiðibáta. Mér gæti ekki verið meira sama um hvort það væru 10.000 tonn eða 20.000 tonn. Það eina sem ég veit er að það skiptir sköpum, ekki bara fyrir 600 fjölskyldur heldur fyrir litlu sjávarplássin allt í kringum landið. Það skiptir sköpum. Mér finnst það vera ábyrgðarhluti ef við ætlum ítrekað að skella skollaeyrum yfir þeirri þróun sem raunverulega er að eiga sér stað hringinn í kringum landið í þessum litlu sjávarplássum þar sem mannauður er, þar sem þekkingin er, þar sem reynsla er, þar sem vilji er til að sækja sjóinn á annan og arðbærari hátt. Ég segi bara: Við getum betur.

Ég er ekki bær til að meta hvort það sé til bóta með frumvarpi hæstv. ráðherra að stíga aftur til fortíðar með þessa svæðaskiptingu. Það virðist vera afskaplega mismunandi hvernig smábátasjómenn líta á það og mörgum þeirra finnst það vera langt frá því að vera sanngjarnt og langt frá því að jafnræði fylgi því vegna þess að fiskurinn er jú hreyfanlegur eins og við öll vitum. Hann syndir ekki og er bara steinstopp á einhverjum stað og jafn margir fiskar í hverju svæði fyrir sig: Komið bara og sækið okkur. Nei, hann kýs með sporðinum, ef svo má segja, og hann velur sér sjálfur svæði og hann byrjar á einum stað og færir sig í kringum landið og þegar tímabilið er í rauninni alveg að verða búið og potturinn er eiginlega búinn, þá er það loksins sem fiskurinn er kannski kominn á svæði A, B, C eða D.

Svo er líka það sem mér þykir rosalega athyglivert og mikið umhugsunarefni fyrir hæstv. ráðherra: Er þá tilfellið að þetta leiði til þess að til þess að geta tekið þátt í því að veiða á því svæði þar sem gengdin er fyrst að koma, þar sem fiskurinn er mestur og bestur í upphafi veiðitímabilsins, sé það virkilega þannig að allt í einu séu orðnir alveg ótrúlega margir strandveiðisjómenn komnir með lögheimili annars staðar á landinu, akkúrat þar sem þetta hólf er, þar sem fiskgengdin kemur fyrst? Er það jafnræði? Þetta kallast sjálfsbjargarviðleitni. Það liggur við að þetta lúti að neyðarrétti, bregðast við því að vera búinn að koma sér upp úthaldi, vera búinn að borga milljónir á milljónir ofan til þess virkilega að sækja sjóinn með krókana sína til þess að veiða og skila því heim í byggðina sína. Ég trúi varla að þetta sé svona. Ég trúi ekki að það sé látið viðgangast og ég trúi ekki að það sé hægt að tala um jöfnuð og sanngirni. Það er bara ekki hægt. Þessi hugtök eiga ekki við undir þessum kringumstæðum. Það liggur bara á borðinu.

Ef það er raunverulegur vilji til þess að gera góða hluti þá reynum við að komast af öllum kröftum til móts við litlu sjávarplássin í kringum landið. Við viljum líka fá að sjá hversu mikið af gjaldeyristekjum stórútgerðarinnar skilar sér raunverulega hingað heim, hvort stór hluti af gjaldeyristekjum stórútgerðarinnar liggi einhvers staðar í skattaskjólum. Þetta eru allt saman hlutir sem við verðum að skoða betur vegna þess að þessar útgerðir eru með aðgang að sameiginlegri auðlind þjóðarinnar. Við verðum að teikna upp heildstætt kerfi í sátt við samfélagið. Samfélagið í heild sinni er alls ekki í meiri hluta sammála þeirri fiskveiðistjórn sem nú er við lýði. Og hvað er þá til ráða? Það er að hæstv. ráðherra taki nú bara utan um sjálfa sig, viðurkenni hvað hún er mikill töffari og geri hlutina af því að hún hefur umboð til þess. Hún var kjörin til þess. Hún situr í stólnum til þess. Hafró er ekki hinn heilagi kaleikur í þessu tilviki hvað mig varðar vegna þess að ég hef orðið vitni að því núna á stuttu tímabili að þriðjungur af því sem þeir töldu að væri þorskstofn bara hvarf og gufaði upp og það þurfti í kjölfarið að draga úr aflaheimildum í veiðum á þorski. Það er ekkert óbrigðult. En með heildstæðri stefnu í málaflokknum með tilliti til sjávarplássanna má koma í veg fyrir það t.d. að norskir auðmenn séu að fá byggðakvóta út á einhverjar verksmiðjur sem þeir voru með fyrir austan, koma í veg fyrir að byggðakvóti rati til stórútgerðarinnar. Það eru stórkostlegar áskoranir sem liggja á hæstv. ráðherra sjávarútvegsmála og ég geri mér fyllilega grein fyrir því að hún ræðst svo sannarlega ekki á garðinn þar sem hann er lægstur með því að taka að sér að berjast í þessu ráðuneyti. Ég efa það ekki að hæstv. ráðherra vill gera sitt besta og er að gera sitt besta en hún gerir það á öðrum forsendum heldur en sínum. Hún getur gert svo miklu betur. Ég trúi því og treysti, þetta er náttúrlega bara 1. umr., að í meðförum nefndarinnar þá hugsanlega eigi eftir að koma eitthvað ákveðið inn, eitthvað gleðjandi fyrir alla þannig að það séu allir sem fái að njóta þess að hæstv. sjávarútvegsráðherra komi hér með frumvarp til þess virkilega að reyna að koma til móts við þetta kerfi.

Ég þarf svo sem ekki að hafa mikið fleiri orð um það. Ég segi náttúrlega sjávarútvegsráðherra því að málaflokkurinn er sjávarútvegsmál sem við erum að ræða hér og ég næ ekki alveg utan um það út af hverju það er búið að taka það hugtak akkúrat burt, þannig að nú er hún frekar matvælaráðherra. En í mínum huga er hún þetta bara allt saman. Hæstv. ráðherra hefur mjög mikið á sinni könnu og mörg stór verkefni. En hjarta mitt slær fyrir alla landsmenn. Ég vil að við reynum að gefa öllum sem besta möguleika á því að afla tekna fyrir sig og sína. Ég vil sjá blómstrandi byggð úti um allt land og við reynum að sýna það í verki varðandi þau mistök sem voru gerð með framsali kvóta, þau mistök sem voru gerð þegar í rauninni aflaheimildirnar voru færðar á silfurfati til örfárra sem við köllum í dag sægreifa og við segjum: Ókei, ef við getum virkilega undið ofan af einhverju og gert eitthvað til að bæta ástandið af því að við sjáum eftir því að þetta skuli nákvæmlega hafa þróast í þessa átt — ég trúi því aldrei að það hafi verið raunverulegur vilji til að standa uppi með þennan kaleik í dag sem raun ber vitni. En ég býst við því að við fáum aðra Verbúð. Það er ekki spurningin um það. Þetta var náttúrlega svo ótrúlega frábært og vakti okkur aftur til umhugsunar um raunverulega hvernig staða mála var á þessum tíma, skaut okkur algerlega aftur til fortíðar. Hér er farið aftur til fortíðar í hólfaskiptin og ég vona það svo sannarlega að það séu góð og gild rök fyrir því að hólfaskipta þessu aftur. Ég ætla líka að vona að um leið komi það ekki niður á einhverjum og eitthvað geti orðið eftir sem heitir sanngirni og jafnræði í kerfinu.