Bráðabirgðaútgáfa.

153. löggjafarþing — 86. fundur,  23. mars 2023.

stjórn fiskveiða.

861. mál
[16:32]
Horfa

Sigurjón Þórðarson (Flf) (andsvar):

Herra forseti. Þetta eru mjög gagnlegar umræður hér. Ég held að þetta þurfi að vera í öndvegi í skoðuninni, þ.e. þessir öryggisþættir sem skipta verulega miklu máli. Síðan er það auðvitað fyrir okkur sem erum utan af landi — þegar við horfum upp á það að jafnvel nærliggjandi fiskimið eru bara ekkert nýtt og menn lifa í einhverju reiknilíkani þar sem bann við fiskveiðum á handfærabátum í Skagafirði á að leiða til aukinna heimilda annars staðar, t.d. á togaraslóð út af Vestfjörðum, það er ekki þannig. Ég fagna því að fólk hér taki þá umræðu um hvort ekki sé hægt að fara að skoða staðbundnari stjórnun að einhverju leyti.

Ég sá að þessar hugmyndir hafa jafnvel komið úr ranni Vinstri grænna, að skoða þessa þætti, og ég fagna þeim því. Það eru möguleikar í því. Við erum búnir að reyna aflaregluna. Hún er ekki að gera sig, það er bara alveg augljóst. Fyrst var markmiðið að ná hér hálfri milljón tonna þegar þessi aðferðafræði var prófuð. Síðan gekk það ekki. Menn reyndu síðan á tíunda áratugnum að skera hressilega niður með rosalegum afleiðingum. Við heyrðum hér hv. þm. Ingu Sæland segja hvernig fólkið týndist í burtu frá Ólafsfirði í kjölfar þeirra friðunaraðgerða. Ég vil segja: Þessi aðferðafræði sem hefur verið stunduð er svolítið stalínsk. Það er ekkert horft til mannlega þáttarins og jafnvel horft á þetta út frá líffræði sem má vægast sagt setja spurningarmerki við.