Bráðabirgðaútgáfa.

153. löggjafarþing — 86. fundur,  23. mars 2023.

stjórn fiskveiða.

861. mál
[16:34]
Horfa

Líneik Anna Sævarsdóttir (F) (andsvar):

Virðulegi forseti. Ég þakka hv. þingmanni andsvarið. Ég tók ekki til mín neina spurningu úr hans andsvari. Auðvitað er það mjög mikilvægt að við ræðum um fiskveiðistjórnarkerfið, en hér erum við í umræðu um frumvarp sem felur í sér ákveðnar breytingar á reglum um strandveiðar, þar sem er að nokkru leyti verið að hverfa til fyrra horfs vegna reynslunnar sem orðið hefur síðustu þrjú árin og einhverjir spáðu fyrir um en aðrir töldu að myndi kannski ekki reyna á. Það finnst mér bara eitt dæmi um það að við erum að endurmeta lögin sem hér eru sett. Við erum auðvitað stöðugt að meta vísindin og uppfæra þekkingu. Og af því að við erum sérstaklega að ræða hér um Hafrannsóknastofnun þá finnst mér mjög mikilvægt að halda því til haga að við þurfum að afla þekkingar um vistfræði hafsins og alla þá stofna lífvera sem þar lifa, óháð beinlínis fiskveiðum, því að þannig búum við líka til nýja þekkingu og hugsanlega möguleika til nýrrar verðmætasköpunar, óháð magni þess afla sem kemur úr sjó.